fundur með sveitarstjórnarmönnum í Norðurlandi vestra.
Hæstv. forseti. Fundurinn sem ég hef boðað til í dag, um sóknaráætlun, snertir vissulega Norðurland vestra ekki síður en aðra landshluta. Ég held að engin ríkisstjórn hafi tekið með eins skipulögðum hætti á þessum málum eins og með þessari sóknaráætlun þar sem unnið er í samstarfi við alla sveitarstjórnarmenn um uppbyggingu á svæðinu og um forgang fjármuna til svæðanna, sem er unnið í samráði við sveitarstjórnirnar sem þær eru mjög ánægðar með. Ég veit ekki til annað en að allir sveitarstjórnarmenn séu ánægðir með það ferli sem hefur verið í gangi í tvö eða þrjú ár, ég veit ekki betur en þeir séu ánægðir með það sem verið er að gera á þeim vettvangi. Við erum í dag að fara yfir fjármagn sem verður úthlutað til landshlutanna á árinu 2012 í samráði við fulltrúa landshlutasamtakanna og ég held að það ferli sem farið er í gang og mun væntanlega halda áfram sé virkilegur áfangi í því að styrkja og bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga. (Gripið fram í.)
Ég vísa því á bug að ég sé að hunsa Samband íslenskra sveitarfélaga. Það er eins og hv. þingmaður nefndi mikið að gera hjá þeirri sem hér stendur. Ég hef reynt að skapa það rými sem hægt er til að sinna svona fundum og þessi fundur verður í dag með fulltrúum á Norðurlandi vestra.