140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

staða ríkisstjórnarinnar.

[11:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Svo að það sé leiðrétt í upphafi og til að fríska upp á minni hæstv. forsætisráðherra þá veitti Framsóknarflokkurinn minnihlutastjórninni hlutleysi sitt til að koma heimilunum til bjargar, hæstv. forsætisráðherra, og nú skal það sagt í síðasta sinn.

Sú sem hér stendur hefur ekkert á móti því að breyta stjórnarskránni enda hefur Framsóknarflokkurinn talað fyrir því. En það var ekki sú spurning sem ég lagði fyrir hæstv. forsætisráðherra og ég beini því til hæstv. forseta að tekið verði upp það vinnuferli á þingi að ráðherrar sem eru spurðir í þessum dagskrárlið svari þeim spurningum sem til þeirra er beint. Ég spurði að því hver staða ríkisstjórnarinnar væri eftir að vera búin að fá á sig þrjá hæstaréttardóma, fá tvær afgerandi þjóðaratkvæðagreiðslur í hausinn, þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru bindandi fyrir ríkisstjórnina en ekki ráðgefandi eins og ríkisstjórnin er að fara fram með núna, fá úrskurð kærunefndar (Forseti hringir.) auk þess að standa frammi fyrir því að þessi hugmynd með stjórnlagaráð er algerlega dæmd til að mistakast. Ætlar ríkisstjórnin að segja af sér (Forseti hringir.) þegar stjórnarskrárklúðrið verður opinbert?