140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

afgreiðsla máls nr. 403 úr nefnd.

[11:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í þinginu hefur legið frammi þingsályktunartillaga frá þeim sem hér stendur um afturköllun ákærunnar gegn Geir H. Haarde. Undir meðferð þess máls hefur komið fram frá saksóknara Alþingis að hún telur gríðarlega mikilvægt að málið fáist afgreitt frá þinginu sem allra fyrst og að það fari í forgang. Síðast kom það fram í fjölmiðlum í dag.

Þetta mál, tillaga um ákæru á hendur einum ráðherra, er mun efnisminna en tillögur um ákæru gegn fjórum ráðherrum sem við höfðum til meðferðar haustið 2010, en hefur engu að síður tekið lengri tíma í meðferð nefndarinnar. Það tók um 17 daga að afgreiða fyrrnefndu tillögurnar en nú fer að líða að því að tvöfaldur sá tími hafi liðið vegna þessarar einu tillögu.

Í ljósi þess hversu mjög er kallað eftir því að málið verði afgreitt, í ljósi þess að öllum er ljóst að það þurfi að fást botn í afstöðu þingsins til þess hvort halda eigi ákærumálinu áfram, og í ljósi þess meiri hluta sem kallaði eftir því að málið fengi meðferð þingsins fyrr á þessu ári, vil ég beina því til forseta að ýta á eftir því að málið verði afgreitt úr nefnd og komi hingað á dagskrá.