140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skilgreining á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda.

196. mál
[11:31]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er lagt til að skora á ríkisstjórnina að standa fyrir skilgreiningu í samstarfi við Færeyjar og Grænland á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á umhverfinu hér á norðurslóðum. Þetta er mjög mikilvægt framtak, þ.e. að utanríkisráðuneyti landanna beiti sér með þeim hætti sem hér er lagt til.

Breytingarnar sem eru að verða á umhverfi og veðurfari á norðurslóðum hafa haft ýmsar afleiðingar, ekki síst aukin efnahagsleg umsvif í tengslum við nýtingu á þeim auðlindum sem eru á svæðinu og auknar siglingar um norðurskautið. Sífellt fleiri ríki sýna svæðinu áhuga þannig að það er mjög mikilvægt að Vestur-Norðurlöndin þrjú tryggi sér núna mikilvægt hlutverk í pólitískri ákvarðanatöku varðandi málefni norðurslóða og Norður-Atlantshafsins og verði þannig betur í stakk búin til að vernda eigin (Forseti hringir.) hagsmuni.

Þetta er mjög mikilvægt mál og ég fagna því ef það nær hér fram að ganga sem í stefnir með atkvæðagreiðslu á eftir.