140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[11:49]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að gera athugasemdir við aðdraganda þessarar umræðu sem er býsna óhefðbundin. Upplýsingar um efni umræðunnar bárust þingmönnum kl. hálfníu í morgun og umræðan sjálf var kynnt kl. hálffimm í gær. Fyrirvarinn var sem sagt skammarlega stuttur, svo stuttur að hv. formaður fjárlaganefndar hefur ekki séð sér fært að vera við umræðuna. Það er miður. Hér er allt undir samkvæmt því skeyti sem við fengum í morgun, fjármál ríkisins og afkoma á árunum 2008–2010, áætluð afkoma ársins 2011 sem og horfur á árinu 2012 og undirbúningur fyrir fjárlög ársins 2013. Það er ekki lítið og auðvitað vert að ræða það, en slík umræða þarfnast vissulega undirbúnings.

Ég vil geta þess að boðaður hefur verið fundur í fjárlaganefnd á miðvikudaginn í næstu viku með Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytinu til að fara yfir einstaka þætti þessara mála. Mætti ætla að í kjölfar slíkrar umræðu gæti farið fram góð umræða í þingsal.

Frú forseti. Hv. framsögumanni, hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, tókst að komast í gegnum allt þetta sem ég taldi upp án þess að nefna eitt einasta jákvætt atriði — utan eitt. Ljósið í myrkrinu var forsætisráðuneytið. Ekki eitt einasta jákvætt atriði um ríkisfjármálin almennt eða þau markmið sem stefnt hefur verið að og þann árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálunum á þessum tíma. Það er eins og hvorki hv. þingmaður né Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið eftir þeim árangri sem náðst hefur og vakið hefur athygli um víða veröld. Ég hvet hv. þingmann til að sýna meiri sanngirni, a.m.k. sýna að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fylgist með því sem er að gerast í ríkisfjármálunum, (Forseti hringir.) þannig að umræðan hér geti verið betri.