140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[11:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í stuttri ræðu um þetta viðamikla umfjöllunarefni sem hér er til umræðu er aðeins hægt að tæpa á nokkrum mikilvægum meginatriðum. Staðreynd málsins er sú að það hefur orðið gjörbreyting á framgangi og vinnslu við fjárlög ríkisins undanfarin þrjú ár. Ef við skoðum síðustu þrjú árin fyrir efnahagshrunið var það 75 milljarða umfram fjárlög. Á árunum frá hruni, í miðri kreppunni, er sú tala 11 milljarðar. Það er enn vissulega of mikið en sýnir samt að við erum á mjög réttri braut og að mikill árangur hefur náðst. Í þessu sambandi breytir engu hvort tekjurnar eru meiri eða minni. Útgjöldin voru á árunum fyrir hrun fullkomlega agalaus og stjórnlaus. Okkur hefur tekist að halda áætlun í ríkisfjármálum frá hruni. Áætlanagerðin stenst langt umfram það sem áður hefur þekkst hér á landi.

Í stað þess að um það bil 100 stofnanir fóru árlega langt umfram heimildir á hverju ári erum við nú að glíma við 20–30 stofnanir. Og þeim fer fækkandi.

Árangur Íslands hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim eins og hér hefur þegar verið getið um. Skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs á síðasta ári og Seðlabankans í janúar eru til vitnis um sívaxandi trú á efnahagsstjórn landsins heima og erlendis. Þannig getum við sagt að það erum við vinstri menn, vinstri stjórn í landinu, sem höfum komið aga á fjármál ríkisins eftir langvarandi óstjórn og agaleysi líkt og endalausar athugasemdir Ríkisendurskoðunar í gegnum árin sýna. Þetta er árangur sem við getum verið stolt af. Vissulega eru margvísleg atriði sem enn þarf að taka á og verið er að vinna að af hálfu stjórnvalda, en heildarmyndin er góð og okkur hefur tekist að koma á góðri stjórn ríkisfjármálanna enda er það forsenda fyrir bættri afkomu heimila og atvinnulífs í landinu að ríkisfjármálin (Forseti hringir.) séu í lagi. Og við erum þar á réttri leið.