140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 119/2010 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

537. mál
[12:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þeirri tillögu sem ég flyt nú er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/2010, en hún felur í sér breytingu á II. viðauka við EES-samninginn. Hann fjallar um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun og sömuleiðis er leitað heimilda til þess að fella inn í hann annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem tölusett er 207/23/EB um flugelda á markaði, og hins vegar tilskipunina sem nefnd er 2008/43/EB en hún fjallar um kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.

Með þeirri fyrri eru settir öryggisstaðlar sem skoteldar verða að uppfylla til að heimilt sé að selja þá í löndum sambandsins. Framleiðendur verða þá að tryggja að flugeldar samrýmist tilgreindum öryggiskröfum. Ef staðan er þannig að framleiðandi á ekki aðsetur innan ESB verður innflytjandi skoteldanna að tryggja að framleiðandinn hafi annaðhvort áður uppfyllt umræddar kröfur eða að innflytjandinn verður að axla þær sjálfur.

Með síðari tilskipuninni, þeirri sem nefnd er 2008/43/EB er svo aftur komið á fót samræmdu kerfi um rekjanleika sprengiefna til almennra nota.

Frú forseti. Til þess að hægt sé að innleiða þetta þarf að breyta vopnalögum nr. 16/1998, með síðari breytingum. Hæstv. innanríkisráðherra mun einmitt leggja fram frumvarp um það á þessu þingi.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.