140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 121/2011 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

540. mál
[12:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég leyfi mér að hefja mál mitt á því að þakka þá vild forseta að hleypa mér að með þetta mikilvæga mál sem ekki má bíða öllu lengur. Með þessu máli leita ég enn heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sem sameiginlega EES-nefndin hefur tekið, að þessu sinni þá sem auðkennd er með töluheitinu 121/2011. Hún fjallar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál. Í ákvörðuninni felst að inn í samninginn verði felld tilskipun Evrópuþingsins og raunar Evrópuráðsins sem auðkennd er með heitinu 2008/50/EB, en sú ágæta tilskipun fjallar um gæði andrúmslofts og miðar að því að ná hreinna lofti í Evrópu. Tilskipunin hefur þann tilgang bestan að einfalda og skýra réttarumhverfi og stjórnsýslu á sviði loftgæðamála með því að sameina fimm gerðir sambandsins í eina. Það mundu nú margir telja vasklega að verki staðið.

Í þessari nýju gerð er mælt fyrir um ráðstafanir sem miða að því að skilgreina og setja markmið um loftgæði til að koma í veg fyrir eða minnka skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfi sem heild. Til þess þarf vitaskuld að meta loftgæði í aðildarríkjunum, vinna gegn loftmengun og hafa eftirlit með framvindu þeirra þátta allra, ekki síst að sjá til þess að upplýsingar um loftgæði séu að öðru jöfnu og alla jafna aðgengilegar alþýðu manna í þeim löndum sem áhrif tilskipunarinnar ná yfir. Þess vegna kallar hún á að gerðar verði loftgæðaáætlanir fyrir öll svæði og alla þéttbýlisstaði þar sem magn mengandi efna fer yfir tiltekin mörk sem meitluð eru í reglur.

Innleiðingin felur því í sér heilsusamlega aðlögun að Evrópusambandinu og kallar á breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hæstv. umhverfisráðherra hyggst eigi síðar en á þessu þingi leggja fram lagafrumvarp sem á að svara þessum kröfum.

Það er mín einlæga ósk, frú forseti, að þegar umræðu er lokið verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar til frekari vinnslu.