140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

ráðherraábyrgð.

86. mál
[12:26]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðmundur Steingrímsson, Siv Friðleifsdóttir og Margrét Tryggvadóttir.

Þetta er í annað sinn sem við leggjum fram þetta frumvarp, en frumvarp sama efnis var lagt fram af hv. þm. Páli Péturssyni á 116. löggjafarþingi. Ástæðan fyrir því að við höfum nú í tvígang lagt fram þetta mál byggist á þeim ábendingum sem komu fram í skýrslu vinnuhóps um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis, ályktunum og tillögum þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sérstaklega skýrslu Bryndísar Hlöðversdóttur um yfirferð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á atriðum sem gefa tilefni til viðbragða af hálfu þingsins.

Í ályktun þingmannanefndarinnar sem samþykkt var hér af öllum sitjandi þingmönnum var lagt til að lög um ráðherraábyrgð yrðu endurskoðuð. Þetta er eitt af því sem við teljum að ætti að koma til skoðunar við allsherjaryfirferð á þeim lögum.

Frumvarpið er svohljóðandi:

„Við 10. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef hann af ásetningi gefur Alþingi rangar upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum.“

Hér er lagt til að ef ráðherra gefur Alþingi rangar upplýsingar eða leynir upplýsingum við meðferð máls á Alþingi verði það refsivert samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð.

Ýmsar tillögur komu fram í þeim skýrslum sem ég fór í gegnum sem vörðuðu starf þingsins og starf ráðherra. Í skýrslunum er einmitt bent á mikilvægi þess að tryggja upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra sem best og eru lagðar til fjórar meginbreytingar.

Í fyrsta lagi að mælt verði fyrir um sannleiks- og upplýsingaskyldu í stjórnarskránni sjálfri og að 54. gr. hennar verði breytt í þá veru að kveðið verði á um að ráðherra sé skylt að svara fyrirspurnum og beiðnum alþingismanna um skýrslur. Um þá skyldu er ekki mælt fyrir í gildandi ákvæði þótt hana megi leiða af ákvæðum þingskapalaga.

Í öðru lagi er því velt upp hvort brot á upplýsingaskyldu ráðherra eigi að vera refsivert samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð eins og lagt er til í þessu frumvarpi. Kemur fram það sjónarmið að eðlilegt sé að brot ráðherra gegn upplýsingaskyldu til þingsins varði refsingu, en slíkt er sagt samræmast dönskum rétti.

Í þriðja lagi að reglur um rétt þingsins til upplýsinga og gagna frá stjórnsýslunni verði skýrðar í þingskapalögum.

Í fjórða lagi að skýrt verði í þingskapalögum að hvaða marki upplýsingar um starfsemi hlutafélaga sem eru að hluta eða að fullu í eigu ríkisins teljist vera opinbert málefni.

Með nýjum þingskapalögum var komið til móts við þriðja og fjórða liðinn sem ég fór í gegnum áðan, en með þessu frumvarpi er komið til móts við ábendingarnar um breytingar á lögum um ráðherraábyrgð um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi. Síðan er mjög mikilvægt í þeirri vinnu sem er nú í gangi varðandi endurskoðun á stjórnarskrá Íslands að hafa í huga að brýnt er að kveða skýrar á um sannleiks- og upplýsingaskyldu ráðherra í stjórnarskránni.

Lög í dag um ráðherraábyrgð taka ekki til ábyrgða ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir því rangt frá, gefur þinginu villandi upplýsingar, eða leynir það upplýsingum. Ráðherrar hafa því ekki nauðsynlegt aðhald að mati flutningsmanna og geta freistast til að gefa Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna það mikilvægum upplýsingum. Þetta getur leitt til óvandaðrar meðferðar mála og jafnvel í framhaldinu orsakað að sjálfsögðu fullkominn trúnaðarbrest milli Alþingis og viðkomandi ráðherra.

Ég ætla að fá að nefna að minnsta kosti tvö dæmi sem hafa komið upp frá því þetta þing var kosið. Ég mundi segja að Gylfi Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, hafi í spurningum til virðulegs forseta veitt rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum sem í því tilviki hefðu skipt miklu við meðferð mála á þingi varðandi gengistryggðu lánin, jafnvel ákvarðanir sem aðrir ráðherrar hefðu þurft að grípa til ef þeir hefðu haft tiltækar þær upplýsingar sem þarna var leynt.

Annað dæmi sem er líka í fersku minni margra er þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði þáverandi fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, um stöðu mála varðandi Icesave-samninginn. Síðan kom í ljós að mönnum hafði tekist á undraverðum tíma, nokkrum klukkustundum nánast, að semja mjög flókinn milliríkjasamning upp á tugi ef ekki hundruð blaðsíðna þrátt fyrir að viðkomandi ráðherra hefði ekkert kannast við það þegar spurt var um það í þinginu. Í samræmi við þetta var flýtirinn mjög mikill þegar keyra átti síðan málið í gegn í staðinn fyrir að tryggja vandaða vinnu.

Ég tel að þessi tvö dæmi og örugglega fjöldamörg önnur ef við förum í gegnum sögu þingsins, sýni að nauðsynlegt er að breyta ráðherraábyrgðarlögunum þannig að menn geri sér vel grein fyrir þeirri miklu skyldu sem hvílir á ráðherrum til að gefa Alþingi réttar upplýsingar og leyna ekki upplýsingum þegar gengið er eftir þeim. Ráðherrar hafa hins vegar alltaf þann möguleika að segja að málið sé það viðkvæmt og upplýsingarnar að í augnablikinu sé hreinlega ekki hægt að svara, og hægt er að gera eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur til dæmis gert, hann hefur þá farið fram á fund, til dæmis í viðkomandi fagnefnd þar sem hann hefur getað upplýst þingmenn og tryggt að þingið geti gegnt skyldum sínum samkvæmt stjórnarskrá.

Þetta er ástæðan fyrir því að við leggjum málið fram. Við teljum í fyrsta lagi að mjög brýnt að farið verði í heildarendurskoðun á ráðherraábyrgðarlögunum. Ég tel að fram hafi til dæmis komið mjög vel rökstuddar athugasemdir varðandi a-lið 10. gr., að ekki sé hægt að beita henni. Í framhaldi verði síðan ákvæði samhljóða því sem hér er lagt til sett í lögin.

Að lokinni umræðu um þetta mál mælist ég til þess að þetta fari inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.