140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

húsaleigubætur.

112. mál
[12:47]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (U):

Frú forseti. Þetta er afskaplega einfalt frumvarp í tveimur liðum og snýst eiginlega um að setja punkt á annan stað í setningu. Þetta snýst sem sagt um húsaleigubætur og rétt námsmanna til húsaleigubóta.

Almenna reglan um húsaleigubætur er sú að fólk sem býr í herbergi með sameiginlegum aðgangi að eldhúsi og baðherbergi skuli ekki njóta húsaleigubóta. Árið 2001 var réttur til húsaleigubóta hins vegar rýmkaður og gerð sú undantekning að stúdentar, ef þeir byggju á heimavist eða á námsgörðum, skyldu fá húsaleigubætur þótt þeir deildu aðgangi að eldhúsi og baðherbergi.

Hér er lagt til að færa punktinn þannig að þetta skilyrði sé fellt burt, að stúdentar þurfi að leigja á heimavist eða námsgörðum til að fá húsaleigubætur. Sem sagt, hér er lagt til að skilyrðið verði rýmkað þannig að ef stúdentar leigja saman á almennum markaði en ekki bara á námsgörðum og deila saman herbergi og/eða eldhúsi geti þeir fengið húsaleigubætur.

Ástæðan fyrir því að þetta er lagt til er einfaldlega sú að ekki er nógu mikið af námsgörðum í boði. Það eru margar ástæður fyrir því, m.a. vegna átaksverkefna af hálfu ríkisstjórnarinnar í námi á háskólastigi og vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Síðast þegar ég vissi voru um það bil 600 manns á biðlista eftir námsgörðum.

Sem betur fer eru nú hafnar framkvæmdir við byggingu á námsgörðum en meðan ástandið er svona verðum við einhvern veginn að koma til móts við námsmenn. Planið er auðvitað að koma til móts við þörf á námsgörðum með því að byggja námsgarða en eitthvað þurfum við að gera til að koma til móts við það að ekki er nóg af þeim núna. Fólk af landsbyggðinni til dæmis þarf að bíða núna í að ég held upp undir átta mánuði eftir því að fá herbergi á námsgörðum.

Hins vegar er dálítið framboð af stórum íbúðum til dæmis í miðborginni og námsmenn hafa tekið upp á því að leigja saman og hefur athygli mín alla vega verið vakin á því að þá fá þeir ekki allir, ef þeir deila herbergi og eldhúsi, húsaleigubætur en mundu gera það á námsgörðum.

Ég held að við verðum að gera þetta einfaldlega vegna þess að þetta er það minnsta sem við getum gert til að mæta því bagalega ástandi að hundruð stúdenta eru á biðlista og leiguverð er mjög hátt núna og ekki mikið framboð af hentugu litlu húsnæði fyrir stúdenta. Hér þarf auðvitað að hafa mjög ríkt samráð við fulltrúa sveitarfélaga, útgreiðsla húsaleigubóta er á forræði þeirra. Þetta kostar vafalítið peninga en eins og ég segi í greinargerð með frumvarpinu verður kannski að fara varlega í að tala um kostnaðarauka í þessu vegna þess að ef þessir stúdentar væru ekki á biðlista heldur á námsgörðum mundu þeir náttúrlega hljóta húsaleigubætur. Það getur varla verið markmiðið að hafa þessa stúdenta á biðlista og á almennum leigumarkaði, það hlýtur að vera markmiðið að byggja námsgarða og þeir fái þá húsaleigubætur. Því er svolítið vafasamt að tala um kostnaðarauka ef við ákveðum að fara í það að reyna að brúa þetta millibilsástand þangað til framboð af námsgörðum verður nægt.

Ég held að það sé það minnsta sem við getum gert að færa þennan punkt í lagafrumvarpinu. Við getum þess vegna haft það tímabundið að binda skilyrðið við greiðslu húsaleigubóta til námsmanna ef þeir deila húsnæði en ekki við það að þeir þurfi endilega að búa á námsgörðum vegna þess að svo vill til að ekki er til nógu mikið af námsgörðum.

Ég legg svo til að þessu máli verði vísað til hv. velferðarnefndar.