140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvað hafi verið rætt á fundi forsætisnefndar sem mér skilst að hafi staðið yfir núna síðasta hálftímann. Eftir því sem mér skilst var óskað eftir þeim fundi meðal annars vegna bréfs sem borist hefði frá fyrrverandi formanni stjórnlagaráðs, Salvöru Nordal, þar sem hún lýsir því að hún muni ekki komast til þess fjögurra daga fundar sem samþykkt var að efna til af meiri hluta þingsins í gær. Það er athyglisvert í þessu máli að Salvör greinir frá því að hún hafi gert formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar grein fyrir þessu fyrr í vikunni, þ.e. áður en málið kom til lokaumræðu og atkvæðagreiðslu í þinginu, sem er sérkennilegt af því að ég held að þessar upplýsingar og aðrar upplýsingar um hugsanlegar fjarvistir annarra stjórnlagaráðsmanna hefðu getað skipt einhverju máli í þeirri umræðu sem fram fór og þeirri atkvæðagreiðslu sem átti sér stað hér í gær. Það er því nokkuð sérstakt að upplýsingar sem lágu fyrir á þeim tímapunkti hafi ekki (Forseti hringir.) komið fram með skýrum hætti fyrir endanlega afgreiðslu málsins í þinginu.