140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég held að það færi vel á því að forseti gerði athugasemd við formann nefndarinnar sem fjallað hefur um málið, að þessar upplýsingar skuli ekki hafa komið fram, að formaður stjórnlagaráðs skuli hafa tjáð formanni nefndarinnar með þetta miklum fyrirvara að viðkomandi aðili gæti ekki komið til þessara starfa. Við bentum á það, meðal annars þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að því formi sem væri á því fyrirkomulagi að senda málið með þessum hætti til stjórnlagaráðs væri ábótavant. Fyrir lá að stjórnlagaráðið hafði lokið störfum sínum og það hefði þurft að standa að málum af miklu meiri formfestu eins og þessu máli er samboðið. Ég verð að segja, herra forseti, að gefnu tilefni (Forseti hringir.) að verklagið er samboðið ríkisstjórninni en það er ósamboðið Alþingi Íslendinga.