140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mikið ætla menn að velta sér upp úr þessu öllu saman. Haft hefur verið samráð og við hittum fulltrúa úr stjórnlagaráði og ræddum við þá um það hvernig við gætum haft við þau samráð. Þau töldu að þá þyrfti að kalla saman hópinn því að annars vissi ekki einn af öðrum og það gæti farið þannig að einhverjir sem hefðu sig meira í frammi en aðrir væru frekar til viðtals, þannig að þetta var ákveðið.

Spurst var fyrir um hve langan tíma þyrfti til að kalla saman hópinn — ég er kannski ekki alltaf nógu formföst og orðaði það þannig: Erum við að tala um þrjár vikur eða þrjá mánuði? Fólk sagði: Þrjár vikur, auðvitað.

Bréfið hefur ekki verið sent út og við getum auðveldlega haft fundinn á laugardag, sunnudag — ég held að Salvör Nordal segist koma heim (Forseti hringir.) 10. mars. Við gætum hafið fundinn 11., 12. mars, það skiptir ekki máli. Ég held samt sem áður að þetta standi hvorki né falli með því hvort formaðurinn verður viðstaddur fyrstu tvo dagana en við erum alveg tilbúin að (Forseti hringir.) taka tillit til þess.