140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Ég kem hingað upp aftur til að ræða um þetta mál á grunni formsins og beini því til forseta hvort eðlilegt sé að taka umræðuna frá því á þriðjudaginn upp á nýtt eða taka nýja ákvörðun um það mál. Mér finnst með ólíkindum að heyra þingmenn sem bera þetta mál hraðast fram halda því fram að það snúist um einhverja daga, hvort stjórnlagaráðið sé kallað saman eður ei.

Herra forseti. Þetta snýst auðvitað um formið. Hvaða hóp er verið að kalla saman? Hóp fólks sem var skipað í stjórnlagaráð? Er það stjórnlagaráðið sjálft eða eru það bara þeir einstaklingar sem þar sitja? Um hvað á að fjalla? Hver á niðurstaðan að verða? Ég vil endurskoða stjórnarskrána og gera á henni ákveðnar breytingar en mér finnst vinnubrögðin vera þess eðlis að fólk haldi að verið sé að breyta reglugerð um kattahald.