140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti kosningum til stjórnlagaþings, var á móti stjórnlagaráðinu, var á móti því að Alþingi fjallaði um tillögur stjórnlagaráðs, var á móti því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði samráð við stjórnlagaráð og er á móti því að leggja málið fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar. Tekist var á um þetta á þriðjudaginn var í löngum umræðum og svo voru greidd atkvæði í gær. Sjálfstæðisflokkurinn í heilu lagi og hluti Framsóknarflokksins lenti í minni hluta. Alþingi Íslendinga hefur talað í þessu máli og gert ályktun og forseti þingsins fullvissaði okkur í forsætisnefnd um það áðan að ekki stæði annað til en að fylgja henni og þegar væri hafinn markviss undirbúningur að því að boða stjórnlagaráð til fundar í samræmi við ályktunina. (Forseti hringir.) Ef menn vilja ekki hlíta ályktunum Alþingis þá verða þeir að koma með ályktunartillögur um að draga þær til baka. Þeir kunna það hjá Sjálfstæðisflokknum.