140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:49]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á fulltrúa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks tjá sig um þetta mál því að þeir eru búnir að snúast í hálfhring frá því í umræðunni í gær. Þá var það alveg ómögulegt yfir höfuð að vera að kalla stjórnlagaráð saman, hvers lags vitleysa það væri; og greinilegt að menn höfðu engan áhuga á samráði né samvinnu um þetta stóra mál.

Nú snýst málið um allt annað, að ekki sé nógu vel staðið að samráðinu og samráðið eigi að vera einhvern veginn öðruvísi og eftir óskum eins eða annars. Það liggur alveg skýrt fyrir í þessu máli að formlega var óskað eftir því að umboð til stjórnlagaráðsins yrði afgreitt af þinginu til að verða við framkomnum óskum stjórnlagaráðs frá því í fyrrahaust. Það er stjórnlagaráðs að fara síðan yfir málið og það er ekki verið að setja þeim skilyrði um eitt eða neitt. Þau munu fá fullt frelsi til að fara yfir þær ábendingar og athugasemdir sem hafa komið fram í umræðunni í allan vetur. (Forseti hringir.) Þetta er samráð og það er greinilegt að einhverjir í þingsalnum þurfa að læra út á hvað samráð gengur.