140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það kemur sífellt betur í ljós, það sem varað hefur verið við í þessu máli, þ.e. hversu illa er á því haldið. Um það snýst þetta, vinnulagið. Þó að þeir sem mælt hafa fyrir þessu og rekið þetta áfram geri mönnum upp alls konar skoðanir varðandi stjórnarskrána og hvað þeim gangi til þá hefur þetta gengið út á það að reyna að benda á þá stórkostlegu galla sem eru á málsmeðferðinni og eru að koma sífellt betur í ljós og nú síðast í bréfi frá formanni stjórnlagaráðs.

Hvað gera menn þá í stað þess að sætta sig við það sem búið er að útskýra fyrir þeim margoft? Þá er farið að gera lítið úr formanni stjórnlagaráðsins sem menn hafa þó verið að hefja upp til skýjanna fram að þess. (Gripið fram í.) Þetta er mjög undarleg nálgun á þetta mál og því miður framhald á því sem hefur tíðkast í þinginu undanfarin þrjú ár, algert fúsk í lagasetningu. (Gripið fram í.)

Hæstv. utanríkisráðherra lýsti frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram um daginn sem bílslysi. Hér er ég dálítið hræddur um að við séum að horfa upp á stórt lestarslys vegna þess að þó að hjólin séu byrjuð að detta undan lestinni þá gefa menn bara í (Forseti hringir.) í stað þess að sætta sig við orðinn hlut.