140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:53]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Enn einu sinni eru þingmenn Sjálfstæðisflokks og nokkrir þingmenn Framsóknarflokks að tala niður Alþingi og nýja stjórnarskrá. Hér talaði áðan hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem í umræðunum í gær um atkvæðagreiðsluna vísaði í grein eftir stjórnlagaráðsmann Pawel Bartoszek — ég bið hann afsökunar ef ég ber nafnið hans rangt fram.

Afstaða hans til stjórnlagaráðsins byggist öll á misskilningi. Hann virðist hvorki hafa hugmynd um hvert hlutverk Alþingis í ritun stjórnarskrár er né hvert hlutverk stjórnlagaráðs í málinu hefur verið. Þó samþykkti hann bréf þar sem ákveðið var að stjórnlagaráð kæmi að málinu aftur.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir er lögfræðingur og ég spyr: Veit hún sjálf ekki hvert hlutverk Alþingis er í meðferð stjórnarskrár þegar hún tekur undir slíkan málflutning? Svo er verið að ræða einhverjar dagsetningar sem hafa hvergi verið meitlaðar í stein. (Forseti hringir.) Það er skammarlegt að hlusta á þessa umræðu og ömurlegt að horfa upp á formann Framsóknarflokksins sem kallaði þá sem vilja nýja stjórnarskrá úr ræðustól Alþingis fasista og kommúnista.