140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[14:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég er að brjóta af mér að nota þennan lið til að leiðrétta það sem rangt er farið með hér. Hv. þm. Þór Saari segir hreinlega ósatt úr þessum stól, að verið sé að fara á svig við eitthvað sem Framsóknarflokkurinn hafi samþykkt á flokksþingi. Það ferli sem er í gangi á ekkert skylt við það sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi sínu árið 2009, ekki neitt. Þar var samþykkt að efna til stjórnlagaþings. Við það stóðum við flest, að greiða atkvæði með því. Það á ekkert skylt við það sem hér er í gangi.

Ef þetta klúðrast, svo að ég segi það nú einu sinni enn, sem ég held að muni því miður gerast, herra forseti, þá er það á ábyrgð þeirra sem keyra þetta mál áfram.