140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

329. mál
[14:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í grófum dráttum taka undir efni þessarar þingsályktunartillögu. Það er ljóst að við horfum upp á að það umhverfi sem við búum við varðandi jarðir og landareignir getur breyst gríðarlega hratt. Eftirspurnin eftir landi og auðlindum vex mjög hratt í heiminum og fjárfestar eru farnir að beina sjónum sínum í auknum mæli að því að jarðaverð og landverð muni hækka á næstu árum samhliða því sem eftirspurn eftir matvælum og því sem framleitt er á jörðunum mun einnig aukast.

Ég held að brýnt sé að þingið, af því að ég hef fulla trú á því að meiri hluti sé fyrir því í þinginu, setji skorður við uppkaupum á landi, við söfnun á jörðum og uppkaupum erlendra aðila á landi. Hvernig lokaútfærslan yrði nákvæmlega þyrfti að skoða, en ég held að mjög brýnt sé að þessi mál séu unnin dálítið hratt í þinginu því að í þessum efnum geta hlutirnir gerst mjög hratt.

Til að mynda vorum við farin að horfa upp á það á góðæristímanum, eins og hann var kallaður, að einstaka fyrirtæki eða aðilar söfnuðu til sín miklum fjölda jarða. Eitt fyrirtæki er talið eiga á milli 50 og 60 jarðir sem eru þar með komnar á sömu hendi. Það veit enginn hver stendur að fyrirtækinu, einungis er búskapur á þremur þessara jarða og nú er mikil óvissa um hvað verður um jarðirnar. Það þarf ekkert mikið að gerast, við gætum til að mynda horft upp á það að erlendur aðili keypti upp hlutafé í fyrirtækinu og þar með væru 50–60 jarðir komnar í hendur aðila sem við mundum ekki hafa skýra sýn á eða ekki hafa neitt með að gera hvernig hann ráðstafaði landinu eða byggði upp til framtíðar, og hvernig svarað yrði spurningum um byggðasjónarmið, matvælaöryggi og fæðuöryggi.

Þess vegna segi ég, herra forseti, að ég held að mjög brýnt sé að þessari vinnu verði hraðað, umræðan verði tekin og mörkuð skýr framtíðarsýn í þessum málaflokki því að hlutirnir geta gerst hratt og sérstaklega á þeim tímum sem við lifum nú þegar jarðaverð á Íslandi er kannski með því lægsta sem gerist í heiminum. Það þarf ekki mikið að gerast til þess að erlendir aðilar uppgötvi það allt í einu og þá getur þetta gerst mjög hratt, á tíu árum getur þetta verið gjörbreytt. Þá horfum við ef til vill um öxl og segjum: Þetta var nú ekki svo skynsamlegt, það hefði verið skynsamlegt á sínum tíma að setjast niður og móta um þetta skýrar reglur, skýra framtíðarsýn. Fordæmin eru til staðar í öðrum löndum, það er misjafnt hvað menn ganga langt. Til að mynda í Kanada er misjafnt á milli fylkja hversu langt er gengið, í ákveðnum fylkjum í Kanada er algjörlega bannað að erlendir aðilar eigi land, í öðrum fylkjum eru því settar ákveðnar skorður. Það er eins í Skandinavíu, Evrópu allri og víðar.

Ég vil því í grófum dráttum fagna þessari þingsályktun og vil hvetja til þess að vinnslu hennar verði hraðað í þinginu. Í þessu efni geta hlutirnir gerst mjög hratt og brýnt er að taka þessa umræðu frá grunni, horfa til framtíðar og marka skýra framtíðarsýn.