140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

329. mál
[14:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það dæmi sem ég tók áðan sneri að fyrirtæki nokkru sem hefur verið töluvert til umræðu í fjölmiðlum, fyrirtæki að nafni Lífsval sem margir fjárfestar komu að. Á góðæristímanum safnaði þetta fyrirtæki miklum fjölda jarða, maður hefur heyrt að þær séu á bilinu 50 til 60 talsins. Ég held að það sé einungis rekinn búskapur á þremur eða fjórum þessara jarða í dag, maður hefur heyrt það og ég veit um einstök dæmi. Þetta fyrirtæki er í greiðsluerfiðleikum, það hefur komið fram í fjölmiðlum að þegar sé búið að auglýsa uppboð á einhverjum þessara eigna og mikil óvissa ríki um hver framtíð þessara 50, 60 jarða verði. Orðrómur er um að menn hafi leitað fyrir sér erlendis að fjárfestum í fyrirtækið til að taka það yfir og þar með þessar 50, 60 jarðir. Ég veit um dæmi þess að einstaklingar hafi leitað eftir því að fá að hefja framleiðslu á þessum jörðum og það er ekkert athugavert við það þó að eignaraðilinn að jörðunum, fyrirtækið Lífsval sem á þessar 50, 60 jarðir, vilji ekkert gera með það.

Hins vegar er það áhyggjuefni að horfa upp á að landið okkar, eins og hv. þingmaður nefndi, ræktunarlandið, að möguleikar séu á að einstök fyrirtæki geti safnað því á eina hendi, kannski tugum jarða, jafnvel rústað heilu byggðarlögunum og ógnað eða dregið úr möguleikum Íslendinga til að sækja fram og auka og efla fæðuöryggi, að auka og efla byggðina, að auka og efla sjálfbærni. Ég veit um einstök dæmi hvað þetta snertir. Ég hef heyrt af þeim, maður hefur fengið símtöl um þau o.fl., en því miður er ekkert hægt að gera. Þess vegna er svo mikilvægt að taka þessa umræðu. Ég finn að það er vilji til þess í öllum flokkum á þinginu að taka þessa umræðu, að marka skýra stefnu hvað varðar land, hvað varðar jarðir og eignarhald á þeim og nýtingu.