140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðalána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Áður en ég vík að þeirri skýrslu sem hér er til umræðu vil ég gera nokkra grein fyrir aðdraganda þess að hún var gerð.

Þann 1. október síðastliðinn afhenti formaður Hagsmunasamtaka heimilanna mér undirskriftalista þar sem krafist er afnáms verðtryggingar og leiðréttingar á stökkbreyttum lánum til heimilanna. Með kröfunum fylgdu fjórar mismunandi leiðir til leiðréttingar á lánum. Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 4. október síðastliðinn, eða þremur dögum síðar, var samþykkt tillaga mín um að fela Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að meta tillögurnar. Þar lagði ég til að Hagfræðistofnun yrði falið að meta áhrif tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna á þjóðarhag.

Á sama tíma var í umræðunni um skuldavanda heimilanna sífellt farið frjálslega með tölur um þann afslátt á fasteignalánum heimilanna sem nýju bankarnir fengu þegar þeir keyptu þau af þrotabúum gömlu bankanna. Ríkisstjórninni var meðal annars legið á hálsi fyrir að beita sér ekki fyrir því að svigrúmið sem afslátturinn skapaði yrði að fullu nýtt til afskrifta. Efast var um opinberar tölur í þessu sambandi og því haldið fram fullum fetum að svigrúmið vegna þessa væri yfir 300 milljarðar kr. Ég taldi það því afar mikilvægt fyrir umræðuna og til þess að mögulegt væri að ná samstöðu um aðgerðir til handa skuldugum heimilum að fá á hreint í eitt skipti fyrir öll hvert þetta svigrúm bankanna væri vegna afsláttarins af fasteignalánum heimilanna og undir þá kröfu tóku margir, meðal annars Hagsmunasamtök heimilanna.

Að höfðu samráði við Hagsmunasamtök heimilanna var leitað til Ríkisendurskoðunar um að stofnunin tæki að sér að upplýsa um hvert svigrúmið væri. Ríkisendurskoðun hafnaði þeirri ósk og lá þá beint við að fela Hagfræðistofnun að takast á við verkefnið. Af hálfu forsætisráðuneytisins var lögð áhersla á að Hagfræðistofnun leitaði til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans um upplýsingar og hafði ráðuneytið milligöngu til að tryggja örugg samskipti. Jafnframt lagði ráðuneytið áherslu á að Hagfræðistofnun hefði samráð á fundi með Hagsmunasamtökum heimilanna og lánveitendum um útfærslu verkefnisins.

Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið lásu yfir drög að greinargerðinni og veittu Hagfræðistofnun mikilvægar upplýsingar við vinnslu hennar. Þá var ýmsum aðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir við drög að greinargerðinni og tók Hagfræðistofnun það til greina eftir atvikum.

Af hálfu stjórnvalda hefur hins vegar verið skýrt að hér er um að ræða greinargerð sem Hagfræðistofnun ein ber ábyrgð á. Eins og rakið hefur verið var eins faglega staðið að þessu og frekast var unnt. Niðurstaða greinargerðar Hagfræðistofnunar var sú að fasteignalán gömlu bankanna hefðu verið færð yfir í þá nýju með 95 milljarða kr. afslætti. Byggir niðurstaðan á því að bera saman fjárhag fasteignalána gömlu bankanna í lok september 2008 og í lok október hjá nýju bönkunum. Í stórum dráttum er þar staðfest svar efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn á Alþingi þótt önnur aðferð hafi verið notuð til að finna svarið. Niðurstaða Hagfræðistofnunar sýnir svart á hvítu að fullyrðingar sem ég rakti áðan um miklu meira svigrúm vegna afsláttarins standast ekki.

Hagfræðistofnun staðfestir einnig að allur afslátturinn sem nýju bankarnir fengu þegar þeir keyptu umrætt lán hafði þegar verið nýttur til að færa niður fasteignaskuldir heimilanna og gott betur. Um síðustu áramót var þannig staðfest að yfir 25 þúsund fasteignalán heimila hefðu verið færð niður um hátt í 160 milljarða kr. en svigrúmið vegna umrædds afsláttar var sem sagt um 95 milljarðar. Um það atriði þarf því ekki að deila hvort sem menn telja þörf á frekari afskriftum eða ekki. Sú umræða þarf hins vegar að byggjast á þeim grunni að einhver muni þurfa að greiða fyrir þær afskriftir. Sannarlega má færa fyrir því rök að fjárhagsleg staða fjármálastofnana geri þeim kleift að standa að enn frekari aðgerðum í þágu skuldsettra heimila. Þeim fjármunum getur ríkisvaldið eða við á Alþingi hins vegar ekki ráðstafað með neinum hætti án samkomulags við umræddar fjármálastofnanir nema þá með skattlagningu.

Ég leyfi mér hins vegar að hvetja fjármálastofnanir eindregið til að ganga eins langt í þessum efnum og mögulegt er til niðurfærslu skulda og sátt um skuldaaðlögun fyrir heimilin. Það er ekki síst í þeirra þágu að sátt náist um þessi mál þegar til framtíðar er litið.

Þá sný ég mér að mati Hagfræðistofnunar á tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna. Tillögur þeirra fela í sér að skuldir heimilanna verði færðar niður um sem nemur hækkun verðlags á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 1. október 2011 að frádreginni hækkun á þessum tíma sem svarar til 4% ársverðbólgu. Það eru efri viðmiðunarmörk verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands. Sá munur svarar til þess að skuldir lækki um 18,7% að mati Hagfræðistofnunar en niðurstaða Hagfræðistofnunar er sú að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna feli í sér niðurfærslu um 200 milljarða kr. Það yrði þá til viðbótar við þá 160 milljarða sem fasteignaskuldir heimilanna hafa þegar verið lækkaðar um.

Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna mundu kosta Íbúðalánasjóð 122 milljarða kr., lífeyrissjóðina 33 milljarða kr. og innlánsstofnanir 45 milljarða kr. Heildarniðurfærslan jafngildir 37% af áætluðum útgjöldum ríkissjóðs í ár. Að mínu mati er fengur að greinargerð Hagfræðistofnunar og er mikilvægt að fá mat óháðra fræðimanna á stöðunni og ýmsum kostum sem verið hafa í umræðunni. Nú geta menn vonandi rætt framhaldið á þeim grunni. Menn geta haft mismunandi skoðanir á þeim leiðum sem til greina koma en það verður að gera þá kröfu að allar slíkar hugmyndir séu byggðar á réttum og raunverulegum forsendum. Upphrópanir og yfirboð þar sem engar forsendur eða von er um efndir gera ekkert annað en að skaða umræðuna og afvegaleiða fólk og skapa væntingar sem ekki er hægt að standa við.

Ýmsar tillögur hafa komið fram um afskriftir skulda í þessa veru. Því miður er það svo að allar tillögur um flata niðurfærslu færa ekki skuldir niður heldur færa þær til. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart enda gufa skuldir ekki upp. Ýmist er verið að færa skuldir yfir á skattgreiðendur eða á börnin okkar og komandi kynslóðir. Það er skylda þeirra sem vilja fara leiðir flatrar niðurfærslu lána að sýna það svart á hvítu hver á að borga brúsann. Það er óboðlegt að svara til: Við prentum bara peninga. Engu skiptir í þessu máli að búa til peningahringekju að hætti útrásarvíkinga svo sem með því að fela rýrnun eigin fjár Seðlabanka í eignarhaldsfélagi. Sama hversu margar hringferðir um hagkerfið við sendum peningana þá þarf einhver að borga og á endanum eru það yfirleitt skattgreiðendur.

Forseti. Við stöndum frammi fyrir erfiðu, siðferðislegu og pólitísku úrlausnarefni. Hvert er réttlætið í þessum efnum? Sannarlega hafa heimilin með há húsnæðislán orðið fyrir umtalsverðum búsifjum vegna hrunsins og óstöðugleika krónunnar og það er ólíðandi að stór hópur fólks festist í vítahring vonleysis vegna þessa. Við því höfum við brugðist og við erum að bregðast við því. En hver getur réttlætt það að skerða lífeyri verkafólks, sem hefur jafnvel aldrei eignast þak yfir höfuðið, til að afskrifa íbúðalán fullvinnandi fólks, þar á meðal stóreignafólks. Stefnan sem við höfum fylgt hefur byggst á sértækum aðgerðum er varða skuldalækkun, en almennum aðgerðum til að létta greiðslubyrði með vaxtabótum sem nemur um 60 milljörðum frá hruni. Jafnframt hefur stefnan grundvallast á varkárni að því er varðar aukin ríkisútgjöld og útgjöld lífeyrissjóða.

Tölur Seðlabankans tala sínu máli. Skuldir heimilanna hafa lækkað verulega og eru nú viðlíka í hlutfalli af landsframleiðslu, eða 107%, og í árslok árs 2007, á hátindi bóluhagkerfisins. Við það má bæta að nýgenginn dómur Hæstaréttar mun hafa í för með sér enn meiri niðurfærslur lána þótt erfitt sé að ráða hvert umfang þeirra verður á þessari stundu. Hvergi í heiminum eru dæmi af hlutfallslega jafnmiklum afskriftum skulda og hér á landi. Með leyfi forseta, langar mig að vitna til Lars Christiansens, danska hagfræðingsins sem varaði á sínum tíma við hruninu. Í Bloomberg fréttaveitunni segir þessi ágæti hagfræðingur, með leyfi forseta:

„Það má örugglega halda því fram að Ísland sé heimsmeistari í að færa niður skuldir heimilanna.“

Svo mörg voru þau orð. (VigH: Ertu að þakka þér það?)

Sem vænta mátti stórjukust vanskil einstaklinga við fjármálastofnanir í kjölfar hrunsins. Staðreyndin er sú að verulega hefur dregið úr vanskilum. Tölur Fjármálaeftirlitsins sýna að um mitt ár 2010 voru 34% einstaklinga með einhver lán í vanskilum. En nú í febrúar sýna nýjar tölur að samsvarandi hlutfall er komið úr 34% niður í 20% samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins. Nýjar tölur um gjaldþrot einstaklinga benda í sömu átt og sýna að við höfum náð að milda höggið af skelfilegum afleiðingum hrunsins á heimilin. Því fer hins vegar fjarri að ég eða ríkisstjórnin líti svo á að við séum komin á endapunkt í þessum efnum og skuldamál heimilanna verða áfram eitt af stóru málunum.

Á vettvangi stjórnvalda er nú unnið að úrvinnslu mála í kjölfar nýgengins dóms Hæstaréttar um gengisbundin lán og er mikilvægt að tryggja sem besta og skjótasta úrlausn þeirra mála með hagsmuni lánþega og samfélagsins í heild að leiðarljósi. Sérstök ráðherranefnd vinnur meðal annars að mótun úrræða vegna þessa hóps sem fór á mis við 110% leiðina að hluta til vegna lánsveða og skoðar mögulegar leiðir til að koma til móts við þá sem keyptu sína fyrstu eign í aðdraganda hrunsins þegar fasteignaverð var í hæstu hæðum. Þetta eru viðfangsefnin, að skoða stöðu þeirra sem gátu ekki nýtt sér 110% leiðina vegna lánsveða og síðan að skoða hvort frekar sé hægt að koma til móts við þá sem voru í langerfiðastri stöðu eftir hrunið, þ.e. þá sem keyptu sína fyrstu eign á þessum árum fyrir hrunið og þegar fasteignaverðið var í hæstu hæðum. Það tel ég vera forgangsverkefni að því er varðar skuldavanda heimilanna.

Þá er einnig verið að skoða hvernig unnt sé að stíga enn frekari skref í að minnka umfang verðtryggðra lána í fasteignaviðskiptum, bæði á vettvangi þings og ríkisstjórnar, eins og fram hefur komið. Vænti ég þess að breið samstaða náist í þinginu um niðurstöðu þess máls sem verið er að vinna í nefnd þingsins.

Ég vil í lokin segja að ef raunhæfar og réttlátar aðgerðir til að létta skuldir heimila standa til boða sem ekki íþyngja skattgreiðendum, skerða ekki kjör lífeyrisþega í nútíð og framtíð og hamla ekki hagvexti í bráð og lengd hljótum við að skoða þær af mikilli alvöru. (VigH: Engar tillögur?)