140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðalána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu í dag. Það er mikilvægt að hún fari fram. Hvað sem okkur finnst um þessa skýrslu er þarft að ræða hana.

Margt athyglisvert hefur komið fram í umræðunni en kannski fátt nýtt. Frétt dagsins að mínu mati eru þau tíðindi að bæði hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir telja að vandinn sé ekki að baki. Sú fullyrðing kom fram að ég tel í ræðum beggja hæstv. ráðherra og það er nokkuð sem við getum unnið eftir.

Í ræðu hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar kom fram að hópurinn með verðtryggðu lánin sé eftir og þurfi áframhaldandi stuðning og aðgerðir. Þá vitum við það. Við öll hér inni höfum væntanlega tekið eftir þessu og getum unnið út frá því í framhaldinu. Þá kom fram í ræðu hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar að þeir sem fengu einhverja bót mála sinna vegna gengislánadómsins hefðu hvort sem er fengið bót vegna 110%-leiðarinnar. Gott og vel, þetta er fullyrðing sem ráðherrann setur fram en þarf að rökstyðja betur vegna þess að ég tel að ekki séu allir sammála um það.

Hæstv. forseti. Við höfum í þrjú ár rætt og rökrætt í þessum stól um skuldavanda heimilanna. Við komumst aldrei að neinni niðurstöðu og ég tel að sú leið að standa hér og rífast endalaust um þetta muni ekki skila neinum árangri. Nú ætla ég að tala við okkur öll, sama hvar í flokki við stöndum og sama hvaða skoðanir við höfum á þessu máli: Við þurfum að taka okkur tak, hefja okkur upp yfir þessa umræðu sem við höfum verið föst í, að kenna hvert öðru um að ekki sé búið að finna neina lausn og rífast endalaust um hvort það þurfi lausn eða ekki.

Við sjálfstæðismenn lögðum fyrir þremur árum fram efnahagstillögur og höfum reyndar gert það á hverju ári síðan, en í upphaflegu tillögunum okkar lögðum við til að þetta mál, vegna þess hversu almennt það er og hversu stórt og varðar í raun öll heimili landsins, færi í þann farveg að við mundum öll setjast saman í nefnd til að taka ákvarðanir og leita lausna. (Gripið fram í.) Það hryggir mig mjög að sú leið hafi ekki verið valin vegna þess að þá stæðum við ekki hér endalaust í sömu umræðunum, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, og núna ár eftir ár. Enn erum við að velta okkur upp úr því að við höfum ekki upplýsingar um hver raunveruleg staða sé og þess vegna sé ekki hægt að taka neinar ákvarðanir. Aðrir segja að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir, menn eru bara rosalega ósammála um hvað þær þýða.

Menn segja annars vegar að ríkisstjórnin vilji ekkert gera, hafi engan skilning á því að vandi sé fyrir hendi, og hins vegar að þeir sem vilji fara í almennar niðurfellingar vilji láta örkumla fólk borga upp skuldir fullfærs vinnandi barnafólks sem á íbúð. Þessi umræða skilar okkur engu. Ég er orðin hundleið á því, frú forseti, að standa alltaf í sömu sporum, upplifa í raun sama daginn dag eftir dag í þinginu, ár eftir ár í þessari umræðu.

Þetta er okkur öllum að kenna, ekki bara ríkisstjórnarflokkunum heldur okkur öllum. Við þurfum öll að taka okkur tak og hefja okkur upp yfir eigin flokkadrætti og eigin fordóma hvert í garð annars, í sumum tilvikum hatur hvert í garð annars sem hefur þau áhrif að við hlustum ekki einu sinni á hugmyndir sem fram koma. Ég vil því enn á ný, þó að liðin séu þrjú ár síðan tillaga okkar var lögð fram, minna á hana og mælast til að við setjumst öll saman yfir þetta verkefni vegna þess að þessi vandi hverfur ekki sjálfkrafa.

Nú eru kosningar að nálgast, þótt sumir hafi haldið því fram að það hefði átt að vera búið að kjósa fyrir löngu. Staðreyndin er sú að þegar kosningar nálgast hleypur ákveðinn kosningahamur í þingmenn og þá sem hér starfa. Þá er hættan sú að við lendum í heimi yfirboða, við förum að yfirbjóða hvert annað. Hver ætlar að bjóða betur, hvaða lausnir ætlar hver og einn flokkur að bjóða fram varðandi skuldavanda heimilanna?

Staðreyndin er sú að vandi er uppi á borðinu. Nú hafa allir sagt það, líka fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem hafa talað hér í dag. Það er gott. Við þurfum að setjast yfir það í sameiningu hvort réttlætanlegt sé að færa til skuldir frá þeim sem eru yfirhlaðnir skuldum á heimilum sínum yfir á aðra. Það er alveg ljóst að ekki er til töfralausn sem sópar þessu öllu undir teppið og hefur þau áhrif að öllum líður miklu betur á eftir. Einhver þarf að borga. Það er hvorki þannig að hægt sé að prenta peninga og leysa vandann með því, né að hægt sé að ganga í ESB og verðtryggingin og allur skuldavandi heimilanna hverfi með því. Við skulum hætta slíkum öfgum í málflutningi. Ég, frú forseti, nenni einfaldlega ekki að standa hér mánuð eftir mánuð og taka sömu umræðuna á sömu forsendunum. Ég hvet okkur öll til að taka okkur tak.

Ég gæti haldið klukkutímaræðu um hvað úrræðin sem ríkisstjórnin hefur lagt fram skila litlum árangri og hvað þetta er misheppnað allt saman, en ég ætla ekki að fara í það far. Við getum rifist endalaust um það hvað hafi gerst í fortíðinni. Menn koma upp í röðum og segja: Hér varð hrun. Heimilin í landinu verða að fá svör við því hvað við ætlum að gera í stöðunni eins og hún er í dag. Nú skulum við taka okkur tak og fara í það verkefni að finna lausnir. Það verður ekki hægt að gera það öðruvísi en að við setjumst yfir það verkefni sameiginlega. Ég hvet okkur öll til dáða. Það þarf að setja skýra umgjörð um það hvernig slíkt samstarf á að vera. Ég lýsi okkur reiðubúin til að ræða það í sameiningu.