140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðarlána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:11]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem er kannski að hluta minnisvarði um hið fræðilega og fjárhagslega sjálfstæði þeirra sem vinna skýrslur fyrir ákveðna kostunaraðila. Það er ekki mikið um rannsóknir í þessari skýrslu. Það er ekki mikið um óháð álit.

Skýrslan hefur verið harðlega gagnrýnd af langflestum sem hafa lesið hana fyrir að vera léleg og að mati margra hefði hún einfaldlega átt að fara í tætarann en ekki í dreifingu. Það virðist engin sjálfstæð rannsókn hafa verið gerð að neinu leyti á viðfangsefninu sem er þó eitt mesta vandamál íslensks efnahagslífs og snertir 74 þús. heimili í landinu. Það er náttúrlega hneisa að þessi leið skuli hafa verið valin. Ekkert virðist hafa verið rannsakað heldur eru heimildir að einhverju leyti, eins og bent hefur verið á, fréttatilkynningar frá hagsmunaaðilum sem eru notaðar sem staðreyndir, svo að fátt eitt sé nefnt.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa sérstöku skýrslu. Hún átti að skýra hvaða svigrúm bankarnir hefðu eftir að búið var að afskrifa skuldir þegar eignir þeirra voru færðar á milli gömlu og nýju bankanna. Það segir meira um stjórnvöld en nokkuð annað að karpa þyrfti um það atriði á Alþingi í rúmlega tvö ár, að hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, sem bar ábyrgð á öllu því bixi, skyldi ekki hafa lagt staðreyndirnar strax fyrir þingið heldur voru bankarnir einkavæddir á síðustu metrum þingsins, rétt fyrir jól, án nánast allrar umræðu. Þess vegna erum við enn þann dag í dag að hluta til að ræða þetta tveimur árum seinna. Það eru náttúrlega ekki boðleg vinnubrögð.

Það er vond staða fyrir Alþingi að geta ekki treyst þeim skýrslum sem beðið er um, en það er því miður ekkert nýtt að framkvæmdarvaldið blekki þingið með skýrslum frá svokölluðum óháðum aðilum. Ný skýrsla um Vaðlaheiðargöng sem keypt var af fjármálaráðuneytinu — nú hefur verið upplýst að henni var ritstýrt úr fjármálaráðuneytinu og niðurstöðum hennar. Þetta er því ekkert nýtt.

Það er brýnt að tekið verði af alvöru og festu á skuldamálum heimilanna. Af því tilefni lögðum við í Hreyfingunni fram tillögur sem við sendum þingmönnum í fyrradag. Þær tillögur höfum við beðið þingmenn alla að skoða vel áður en þeir koma og tjá sig um þær í pontu Alþingis, en ekki eins og hv. þm. Magnús Orri Schram gerði í gær og hv. þm. Magnús M. Norðdahl gerði áðan þar sem þeir vísuðu til þess að tillögurnar væru ávísun á skattahækkanir og skert kjör aldraðra og öryrkja. Það er einmitt það sem við sýnum fram á í þessum tillögum að þurfi ekki að gerast. Það er óþolandi að hlusta á sömu möntruna aftur og aftur og þau óheilindi um þingmál sem eru lögð fram eingöngu í pólitískum tilgangi andstæðinga þeirra. Sumir virðast ekki geta tekið efnislega afstöðu til mála. Það er kominn tími til að (Forseti hringir.) breyta því. Þangað til munum við vera föst í þeim fúla pytti sem Alþingi hefur allt of lengi verið fast í, að erfitt er að ræða hér (Forseti hringir.) mál á málefnalegum grunni.