140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

ESB og fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi.

[15:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Á þingfundi sumarið 2009 sagði hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þvert á móti á að mínu mati að leggja megináherslu á að fá stærstu spurningunum svarað sem fyrst og fá það skýrt fram hvort þær væntingar sem sumir hafa um að Ísland geti fengið þarna umtalsverðar varanlegar undanþágur frá meginreglum Evrópusambandsins séu raunhæfar eða ekki.“

Frú forseti. Ég get tekið undir þessi ummæli hæstv. ráðherra og vil því beina spurningu til hans og hef líka til hliðsjónar ummæli hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar. Eitt af þeim meginmálum sem snúa að sjávarútveginum snýr að fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi. Í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB frá því í október í fyrra um framvindu viðræðnanna kemur meðal annars fram, ég held að það sé á bls. 25, að takmarkanir á fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi séu enn til staðar í lögum og hnykkt er á því að það sé ekki í samræmi við lög ESB.

Spurning mín er þessi, frú forseti: Er þetta ekki eitt af þeim meginmálum sem við þurfum að láta reyna á með hraði og ef okkur býðst ekki annað en til dæmis Norðmenn fengu á sínum tíma sem var, ef ég man rétt, þriggja ára aðlögunartími að þessu regluverki, mun þá ekki gilda sú yfirlýsing sem hæstv. ráðherra gaf í sömu ræðu og ég vitnaði til? Þar sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Ef [væntingarnar] eru ekki raunhæfar er ástæðulaust að halda viðræðum áfram.“

Ef með öðrum orðum kemur í ljós í umræðunum að ekki er hægt að búast við að við fáum varanlegar undanþágur frá til dæmis þessum reglum, um fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi, mun þá hæstv. ráðherra standa við yfirlýsingu sína frá 2009 og hætta viðræðunum við Evrópusambandið?