140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

uppgjör gengistryggðra lána.

[15:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstiréttur hefur ítrekað staðfest ólögmæti gengistryggðra lána. Aftur og aftur hefur almenningur þurft að leita réttar síns fyrir dómstólum vegna brota fjármálafyrirtækja með þeim gríðarlega kostnaði sem það hefur í för með sér fyrir fólk sem þegar er komið á vonarvöl fjárhagslega. Á meðan hafa stjórnvöld og eftirlitsaðilar, stjórnsýslan í heild, ráðherra eftir ráðherra hunsað óréttlætið, jafnvel lögfest það með afturvirkum hætti og vísað ábyrgð frá sér til dómstóla.

Nú síðast var þetta staðfest með dómi Hæstaréttar um ólögmæti afturvirkni vaxtaútreiknings gengistryggðra lána. Því spyr ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvað hann sem einn af forustumönnum ríkisstjórnarinnar hyggist gera. Ætlar hann áfram að standa með fjármálafyrirtækjunum gegn almenningi eða ætlar hann að sýna smámanndóm og axla þá ábyrgð sem felst í því að leiða þetta land? Hyggst ráðherrann afnema reiknireglu laga nr. 151/2010, um afturvirkni vaxtaútreiknings gengistryggðra lána? Hyggst ráðherrann leggja til að viðbrögð vegna ólögmætis gengistryggðra lána verði samræmd á milli ráðuneyta í stað þess að halda áfram að vísa ábyrgð frá sér á milli ráðuneyta og ólíkra stofnana? Hyggst ráðherrann beita sér fyrir því að tekið verði á vörslusviptingum án dómsúrskurðar á ólögmætri innheimtu, vafasamri skattalegri og bókhaldslegri meðferð, ólögmætum uppboðum og eignarhaldi undirliggjandi eigna?

Hyggst ráðherrann leggja til við samráðherra sína að fólk fái gjafsókn vegna fordæmisgefandi mála, samanber lagafrumvarp hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að mál sem varða grundvallarþætti í uppgjöri ólögmætra lána fái hraðmeðferð í gegnum dómstóla, samanber frumvörp hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og mín, og að lögum verði breytt til að tryggja að dómsúrskurður verði að liggja fyrir við vörslusviptingu? Eða ætla menn að halda áfram að láta eins og strútar og grafa sig lengra (Forseti hringir.) niður í sandinn?