140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

uppgjör gengistryggðra lána.

[15:14]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður vill fá svör við sex, átta spurningum væri ágætt að þær (EyH: Ég …) spurningar yrðu lagðar fram. Það er ekki hægt að ætlast til þess að maður svo mörgum spurningum sem maður heyrir í fyrsta sinn og hefur eina eða tvær mínútur til að bregðast við.

Í fyrsta lagi hafa menn verið að greina þennan dóm og vinna lögfræðiálit. Utanaðkomandi álita verður aflað á því mati á dómnum og hversu langt og víðtækt er hægt að túlka hann, hversu ríkt fordæmisgildi hans er. Orkan hefur farið í að greina það núna á fyrstu dögunum og þar miðar mönnum áfram, samanber það lögfræðiálit sem ég vitnaði til áðan.

Í öðru lagi er verið að skoða spurninguna um endurupptöku eða það að opna gagnvart fullnustuaðgerðum. Það hefur þegar komið fram. Að sjálfsögðu þarf að breyta gjafsóknarreglunum og það höfum við lengi viljað gera. Þær voru eyðilagðar á sínum tíma og um það hafa verið flutt þingmál. Í þriðja lagi er verið að skoða þau mál sem eru í dómskerfinu og er hægt að ná samkomulagi málsaðila um að hraða mikilvægum málum og gefa þeim algjöra flýtimeðferð sem svarar þá grundvallarspurningunum. Það er hægt að bæta við kröfum (Forseti hringir.) og varakröfum og þrautavarakröfum þannig að í næstu umferð fáum við tæmandi niðurstöðu í málinu frá dómstólunum. Þetta er allt í kortlagningu og skoðun nákvæmlega eins og við tölum.