140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hugsanleg þátttaka þingmanna í búsáhaldabyltingunni.

[15:30]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er erfitt í sjálfu sér að tjá sig um þessi mál meðan maður hefur engar upplýsingar í höndum aðrar en þessa skrýtnu fjölmiðlaumfjöllun í gærmorgun, eða hvað það nú var. Nú skilst mér að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi komið fram og upplýst að ekki sé verið að gera neina skýrslu og þaðan af síður sé nokkur rannsókn í gangi. Hins vegar sé tiltekinn yfirlögregluþjónn að safna saman gögnum (Gripið fram í.) til að halda þeim til haga. Sé svo þá er náttúrlega mjög alvarlegt ef það er sett í loftið að verið sé að vinna á þeim grunni að einhverjir tilteknir þingmenn, án þess að nafngreina þá, án þess að leggja fram neinar sannanir, hafi ekki bara fjarstýrt þessum mótmælum, sem er náttúrlega afar fjarstæðukennt að láta sér detta í hug, og annað og öllu alvarlegra ef menn láta að því að liggja að þessir þingmenn hafi reynt að hafa áhrif á það hvernig mótmælin færu fram þannig að það gerði lögreglunni erfiðara um vik eða stofnaði henni í hættu. (Gripið fram í: Er ekki best að …?) Ég sit ekki undir því ef mitt nafn er dregið inn í slíkt, og er alveg sama hver í hlut á, að ósekju að það sé gert, (Gripið fram í: Eigum við ekki að rannsaka …?) án þess að gögn séu þá lögð á borðið, sannanir færðar fram og ég komi sjónarmiðum mínum að í þeim efnum. (Gripið fram í: Ný rannsókn.) Það er með öllu tilhæfulaust í mínu tilviki og meira en það því að ég stóð hér í þessum ræðustóli á þessum dögum og við vorum þá að reyna að sammælast um það í stjórnmálunum að hvetja til þess að allir héldu ró sinni, að öll mótmæli færu friðsamlega fram og menn forðuðust allt ofbeldi. Það verður varla alvarlegra að ætla mönnum að hafa þá, þvert gegn því sem menn sögðu, verið að reyna að gera eitthvað annað. (Gripið fram í: Á að rannsaka …?) Að sjálfsögðu. Ef svona ásakanir verða uppi eða dylgjur, sem ég kýs að kalla það, þá skulum við rannsaka það og þá líka allt saman. Við þurfum þá væntanlega að rannsaka mótmælin sem héldu áfram og urðu hér við þingsetningu í fyrra og hittiðfyrra og hverjir (Forseti hringir.) tengdust þeim. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: … framfæri … …) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsal.) (MÁ: … Jón Gunnarsson …) [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um þögn í þingsalnum.) (MÁ: Tala við Jón.)