140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hugsanleg þátttaka þingmanna í búsáhaldabyltingunni.

[15:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eftir því sem ég skil þetta mál er lögregluþjónninn sem um ræðir að taka saman gögn og mun skila skýrslu til lögreglustjórans í Reykjavík um þessi mótmæli. Það er hins vegar, og ég tek undir það með ráðherra, sama hver þingmaðurinn er. Og ég man ekki, ef ég á að vera alveg hreinskilinn, eftir að hafa séð nafn hæstv. ráðherra í allri þessari umræðu. Engu að síður er mjög erfitt fyrir þingið í heild og alla þingmenn sem nú sitja og sátu í þinginu ef það er einhver óvissa eða, eins og menn hafa talað um, dylgjur, meintar dylgjur vil ég þá orða það, um þátttöku þingmanna með einhverjum hætti í þessum mótmælum. Nú er það þannig að gera þarf greinarmun á því hvort menn eru að mótmæla með sínum lögbundna rétti eða hvernig það er eða hvort þeir eru að aðhafast eitthvað sem skapar hættu eða er ólöglegt.

Ég hef skilið hæstv. ráðherra á þann veg að hann sé ekki á móti því að þetta mál sé hreinlega rannsakað (Forseti hringir.) ofan í kjölinn og því held ég að við ættum að drífa þá þingsályktunartillögu sem hér verður lögð fram í gegnum þingið.