140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur.

503. mál
[15:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Hann hreyfir hér við þörfu máli. Við vinnslu svaranna var leitað bæði til Samtaka verslunar og þjónustu og Neytendastofu um upplýsingar.

Í fyrsta lagi er spurt hvort þær verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur sem viðskiptaráðuneytið gaf út í desember árið 2000 hafi fest sig í sessi og skilað þeim árangri sem stefnt var að.

Þá er rétt að undirstrika að hvorki í íslenskum lögum né í evrópskum rétti hafa verið lögfestar reglur um rétt neytenda til að skila eða skipta ógallaðri vöru þannig að Ísland er ekki einsdæmi í þeim efnum, þvert á móti er það hin almenna regla, þ.e. að þegar um er að ræða kaup og afhendingu á fastri starfsstöð. Réttur neytenda til að falla frá samningi um kaup og sölu á vöru og þjónustu er hins vegar tryggður í lögum nr. 43/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, þegar viðskipti falla undir þá löggjöf. Hv. fyrirspyrjandi fór yfir þær meginreglur sem eru í verklagsreglunum frá 2000, þ.e. um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur, og þar kom allt réttilega fram. Þar er réttur til að skila ógallaðri vöru miðaður við 14 daga frá afhendingu; vörur sem merktar eru með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil; inneignarnótur skulu miðast við upprunalegt verð vörunnar; gjafabréf og inneignarnótur halda gildi í allt að fjögur ár frá útgáfudegi og skilaréttur tekur svo ekki til útsöluvöru nema þá um það sérstaklega samið.

Þessar reglur eru eðli málsins samkvæmt leiðbeinandi og því er það alfarið á hendi hverrar verslunar fyrir sig að taka ákvörðun um hvort og þá hvernig hún tekur á atriðum sem varða skilarétt neytenda á ógallaðri vöru. Um inneignarnótur og gjafabréf gildir hið sama en almennt fer um slíkar skuldbindingar eftir meginreglum kröfuréttarins, en slíkar kröfur fyrnast á fjórum árum

Í svari Neytendastofu við fyrirspurn ráðuneytisins um þetta mál kemur fram að Neytendastofa telur að umræddar verklagsreglur, um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur, hafi tvímælalaust skilað miklum árangri fyrir neytendur og verslanir, ekki síst smærri fyrirtæki, í þeim tilvikum þar sem neytendur vilja skipta eða skila ógölluðum vörum. Þá kemur jafnframt fram í svari Neytendastofu að þegar verslanir leiti upplýsinga hjá Neytendastofu í því skyni að koma til móts við viðskiptavini sína að þessu leyti hafi reynslan sýnt að þær styðjast nær alltaf við þessar verklagsreglur, þ.e. þegar verslanir móta sér reglur eru það þessar verklagsreglur sem eru í heiðri hafðar.

Í öðru lagi er spurt hvort fyrir liggi upplýsingar um hversu stór hluti verslunar- og þjónustufyrirtækja virði reglurnar eða fari eftir þeim. Þá er því til að svara að hvorki ráðuneytið, Samtök verslunar og þjónustu né Neytendastofa búa yfir upplýsingum um það hversu stór hluti verslunar- og þjónustufyrirtækja notar reglurnar.

Reynsla Neytendastofu sýnir að verklagsreglurnar virðast oftast vera grundvöllurinn fyrir umræddri þjónustu hjá fyrirtækjum sem stunda viðskipti við neytendur. Jafnframt segir í svari Samtaka verslunar og þjónustu að samtökin hafi þá reglu að upplýsa félagsmenn sína um tilvist reglnanna.

Það liggur hins vegar ekki fyrir hversu stór hluti neytenda þekkir reglurnar og á því þyrfti að verða bragarbót. Þó virðast neytendur yfirleitt telja að þeir eigi skilarétt á vörum sem bendir til þess að verslanir veiti þá almennt einhvern slíkan skilarétt og fari því, a.m.k. að einhverju marki, eftir verklagsreglunum.

Loks er í þriðja lagi spurt hvort uppi séu af hálfu ráðuneytisins áform um að gera skipulegt átak í því að kynna enn frekar fyrir neytendum og rekstraraðilum umræddar verklagsreglur til hagsbóta fyrir bæði neytendur og seljendur. Því er til að svara að samkvæmt upplýsingum frá Samtökum verslunar og þjónustu hafa þau ásamt Neytendasamtökunum hafið undirbúning að því að auka kynningu á verklagsreglunum neytendum og verslunum til hagsbóta. Ráðuneytið fagnar því framtaki og mun fylgjast með framvindu þess og stuðla að því fyrir sitt leyti og að þetta verði gert á báðar hliðar, þ.e. til þess að auka annars vegar þekkingu neytenda að sjálfsögðu og upplýsa þá um að ganga eftir því hvort þeir eigi réttindi á grundvelli reglnanna en sömuleiðis að uppfræða verslunina og tryggja að þar séu mönnum reglurnar ljósar og eftir því sem mögulegt er hvetja til þess að farið sé eftir þeim.