140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur.

503. mál
[15:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Geirsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég tel að stigið hafi verið mjög mikilvægt skref í neytendavernd og neytendarétti þegar slíkar reglur voru settar fyrir liðlega áratug. Því er ekki að leyna, eins og kom fram í svari hæstv. ráðherra, að þær reglur hafa sett mark sitt á það hvernig tekið hefur verið á málum þar sem menn hafa beitt þeim og horft til þeirra meginatriða sem koma fram í þeim. Hitt er svo annað mál að það liggur fyrir meðal annars af öflugu starfi Neytendasamtakanna að mjög stór hluti af starfi þeirra fer í ráðgjöf og upplýsingar um einmitt þessi mál vegna þess að almenningur virðist því miður vera illa upplýstur um stöðu sína.

Ég vek athygli á að í því ástandi sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum árum þar sem hrina gjaldþrota í kjölfar efnahagshrunsins hefur dunið yfir hafa neytendur tapað margvíslegum eignum og rétti varðandi gjafabréf sérstaklega þegar fyrirtæki hafa farið á hausinn og réttur til að nýta slík gjafabréf sem lagt hefur verið út fyrir er fyrir borð borinn. Þetta er auðvitað vandamál en það skiptir miklu að almenningur sé upplýstur og meðvitaður um stöðu sína og ekki síður kaupmenn.

Ég vek líka athygli á að þegar verklagsreglurnar voru settar var sérstaklega tekið fram í 1. gr. að kynning á þeim yrði við kassa í verslunum og hugsanlega væri hægt að nota kvittanir með skilaboðum um þennan rétt sem neytendur gætu kynnt sér. Ég vænti þess að menn beiti öllum mögulegum leiðum til að fylgja þessu máli eftir í því átaki sem fram undan er.