140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

eignarhald ríkisins á fyrirtækjum.

427. mál
[15:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur fóru mörg fyrirtæki á hausinn við hrunið en fyrir fall fjármálakerfisins haustið 2008 voru nær öll fjármálafyrirtæki landsins í einkaeigu. Í kjölfar stofnunar nýju bankanna við uppskiptingu eigna og skulda gömlu bankanna færðust eignarhlutir í nokkrum fjármálafyrirtækjum til ríkisins eins og kunnugt er. Þar sem álitið var að það væri ekki hlutverk ríkisins að reka fjármálafyrirtæki eins og þau sem lent voru undir eignarhaldi ríkisins var talið mikilvægt að ríkið hefði forgöngu um að móta sér skýra stefnu um hvernig umrædd félög yrðu rekin á meðan eignarhald væri með þessum hætti. Þetta byggði meðal annars á því að öll þessi félög væru í harðri samkeppni hvert við annað, auk þess sem mikilvægt væri að skýra hlutverk, ábyrgð og stjórnunarhætti ríkisins gagnvart umræddum félögum.

Í september 2009 gaf fjármálaráðuneytið út eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki þar sem gerð var grein fyrir markmiði ríkisins með eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum, gerð var ítarleg grein fyrir skipulagi eigendahlutverks innan ríkisins og gerð var grein fyrir þeim meginreglum sem ríkið setti sjálfu sér sem eiganda ásamt þeim kröfum og viðmiðunum sem ríkið gerði til reksturs slíkra félaga.

Í framhaldinu skipaði fjármálaráðherra í stjórn Bankasýslu ríkisins sem sett var á stofn með lögum nr. 88/2009 og er ætlað að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum í samræmi við lög, góða stjórnsýslu og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma.

Sú vinna sem unnin hefur verið við þróun eigendastefnu fjármálafyrirtækja hefur verið nýtt sem grunnur undir frekari þróun þessara mála varðandi önnur félög í eigu ríkisins. Rétt þótti þó þar sem um nýmæli var að ræða að láta reyna á eigendastefnu í fjármálafyrirtækjum áður en lengra væri haldið og öðrum félögum yrði sett slík eigendastefna. Í framhaldi af opnun Hörpunnar hefur ríkið ásamt Reykjavíkurborg unnið að sérstakri eigendastefnu vegna hennar þar sem brýnt þótti með hliðsjón af sameiginlegu eignarhaldi hennar að fyrir lægi skýr stefna beggja eigendanna um stjórn og skipulag hennar. Sú stefna er nú á lokastigi og er gert ráð fyrir að hún verði formlega sett á næstu vikum.

Varðandi önnur félög í eigu ríkisins hefur ríkið um skeið unnið að almennri eigendastefnu félaga í eigu þess. Þegar sú stefna verður tilbúin mun hún gilda almennt um félög í eigu þess. Sum félög, eins og til dæmis orkufyrirtæki, eru þó þess eðlis að meta þarf hvort ekki sé rétt að unnin verði sérstök eigendastefna byggð á hinni almennu stefnu sem taki á þeim sérsjónarmiðum sem þar kunna að rísa.

Á þessu stigi liggur ekki fyrir nein sérstök stefna eða ákvörðun um einkavæðingu fyrirtækja í eigu ríkisins. Ljóst er hins vegar að ekki er ætlunin að ríkissjóður sitji um langt skeið að eignarhaldi allra þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið hefur yfirtekið vegna erfiðleika á fjármálamarkaði.

Í ráðuneytinu er nú unnið að lagafrumvarpi sem marka mun ramma utan um sölu þessara eignarhluta og er gert ráð fyrir að það verði lagt fyrir Alþingi á næstu vikum.

Í langtímaáætlun í ríkisfjármálum 2012–2015, sem kynnt var samhliða framlagningu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012, er gert ráð fyrir umtalsverðum tekjum af sölu á eignarhlutum í félögum og fyrirtækjum og eftir atvikum annarri eignasölu. Í fjárlögum ársins er gert ráð fyrir því að strax á næsta ári muni sala fjármálafyrirtækja skila ríkissjóði umtalsverðum tekjum.

Unnið hefur verið eftir þeirri áætlun að ríkið losi að fullu um eignarhlut sinn í Arion banka og Íslandsbanka en tryggt verði að eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum fari ekki niður fyrir 66–75%. Í fjárlögum ársins er heimild til sölu á eignarhlutum í þeim sparisjóðum sem ríkið hefur eignast hluti í.

Gert er ráð fyrir að Bankasýsla ríkisins muni vinna að tillögum að stefnu um sölu þeirra eignarhluta sem stofnunin fer með eignarhluti í fyrir hönd ríkissjóðs.

Hv. þingmaður fjallaði um fyrirtæki sem lent hafa í höndum Landsbankans eftir að þau lentu í fjárhagslegum vandræðum. Ég tel ekki ástæðu til þess að bankinn eigi og reki fyrirtæki, enda skal bankinn selja (Forseti hringir.) fyrirtækin eða setja þau á markað samkvæmt lögum eins fljótt og auðið er.