140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

eignarhald ríkisins á fyrirtækjum.

427. mál
[16:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og tek undir með hv. þingmanni þegar hún talar um aðkomu þingsins að sölu ríkiseigna. Í því frumvarpi og þeirri eigendastefnu sem unnið er að í fjármálaráðuneytinu, en sú vinna er á lokastigum, er aðkoma þingsins og þingnefnda einmitt skilgreind þegar fyrirtæki í eigu ríkisins eða hlutar í fyrirtækjum í eigu ríkisins eru seld. Vera má að þetta hafi tekið of langan tíma en verið er að fylgja þessu eftir núna á lokasprettinum, á þessum dögum.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson spurði um sparisjóðina og framtíðarsýnina hvað sparisjóðakerfið varðar. Nú er ljóst að eftir efnahagshrunið er sparisjóðakerfið í molum ef svo má segja. Sparisjóðirnir viku frá grunngildum sínum úr fortíðinni, frá þeim gildum sem þeir höfðu staðið fyrir og tóku þátt í því sem fram fór hjá viðskiptabönkunum á þeim tíma. Ég held, því miður, að það sé ekki svo að hægt sé að endurreisa sparisjóðakerfið ef þarf að gera það með fjármunum ríkissjóðs, ég held að það sé of laskað til að hægt sé að reisa það við með einhverjum smáaurum, heldur er það trú mín að mikið þurfi til til að reisa það við að nýju. Ég skil vel þær hugsjónir sem að baki liggja (Forseti hringir.) þegar menn vilja reisa það kerfi við.