140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

fjar- og dreifkennsla.

431. mál
[16:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég átti mjög ánægjulegt samstarf við hæstv. fjármálaráðherra þegar við sátum saman í menntamálanefnd og saknaði hennar raunar mjög mikið þegar hún fór þaðan út og tók við fjármálunum, en treysti því hins vegar að hún sé tilbúin til að fylgja einmitt menntamálum ágætlega eftir innan ráðuneytisins. Ég mundi því gjarnan vilja ræða við hana um fjarnám og dreifnám sem mér hefur verið mjög umhugað um.

Fjarnám við íslenska framhaldsskóla sérstaklega hefur verið í örri þróun síðustu ár og sífellt fleiri nemendur hafa reitt sig á það sem hluta af sínu hefðbundna námi. Sama hefur raunar gilt hvað varðar háskóla. Þetta á jafnt við um nemendur þeirra skóla sem bjóða upp á fjarnám og vilja meiri sveigjanleika í tímasókn, en ekki síður við nemendur annarra skóla, einkum utan höfuðborgarsvæðisins, sem hafa viljað nýta sér fjölbreyttara námsframboð stærri skólanna án þess að þurfa að flytjast búferlum frá heimabyggð sinni.

Fjarnám hefur einnig sýnt sig að er mjög mikilvægur þáttur í símenntun, einkum þeirra sem vilja bæta við sig námi samhliða vinnu og er stærstur hluti þess hóps konur. Þá hefur færst í vöxt að nemendur efstu bekkja grunnskóla hafa verið að taka einstaka áfanga á framhaldsskólastigi samhliða grunnskólanámi sem gerir þeim kleift að flýta ferð sinni í gegnum framhaldsskólanám.

Ég tel að fjar- og dreifnám hafi líka að mörgu leyti gjörbylt bæði menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu úti á landi vegna þess að fólk á staðnum hefur getað sótt sér menntun í gegnum fjar- og dreifnám án þess að þurfa að flytja úr viðkomandi heimabyggð.

Í úttekt sem Sólveig Jakobsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir við mennta- og vísindasvið Háskóla Íslands gerðu fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið árið 2010 kom fram að niðurskurður á fjárlögum hefur haft mikil áhrif á framboð fjarnáms og hefur það dregist verulega saman hjá þeim skólum sem upp á það hafa boðið. Þetta er þrátt fyrir að kostnaður á hverja kennda einingu í fjarnámi sé umtalsvert lægri en kostnaður við staðnám og getur það munað allt að 40%. Hefur þessi samdráttur einkum bitnað á grunnskólanemendum sem ekki geta lengur tekið einingar á framhaldsskólastigi í fjarnámi en ekki síður á þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að stunda hefðbundið dagskólanám, oft konur komnar upp undir miðjan aldur.

Einn af þeim þáttum sem nefndir eru í skýrslu Sólveigar og Þuríðar er staða kjarasamninga Kennarasambandsins er kemur að fjarkennslu. Engin sérstök ákvæði eru um laun fyrir slíka kennslu og hafa skólar farið þá leið að semja sérstaklega við kennara sína um fjarkennsluna.

Þó ekki sé víst að það fyrirkomulag sé með öllu alslæmt vil ég spyrja hvort fjármálaráðuneytið hafi rætt við Kennarasamband Íslands um kjarasamninga varðandi fjarkennslu. Ef svo er hvar eru þær viðræður staddar? Ef ekki, er fyrirhugað að ræða við Kennarasambandið um slíka samninga?