140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

fjar- og dreifkennsla.

431. mál
[16:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns hefur fjarnám minnkað töluvert vegna aðhaldsaðgerða á framhaldsskólastigi. Það eru ekki til sérstakir kjarasamningar fyrir fjarnámið. Reyndar eru menn ekki á einu máli um að það sé nauðsynlegt heldur eigi fjarnámið að falla undir aðra kennslu.

Fjármálaráðuneytið og Kennarasambandið sömdu um það árið 2001 að hver skóli og starfsmenn hans í samráði við samningsaðila gerðu með sér samning um mat á fjarkennslu. Þau ákvæði hafa haldið gildi sínu en dreifkennsla hefur ekki komið til umræðu á milli samningsaðila.

Síðastliðið ár var samhliða kjarasamningi gerður samningur á milli menntamálaráðuneytisins og Kennarasambandsins um aðlögun kennarastarfsins að nýjum framhaldsskólalögum og skipaður starfshópur um þær breytingar. Fjármálaráðuneytið á aðild að því starfi og í vor mun afrakstur af því koma til úrlausnar samningsaðila.

Almennt er fagleg skipulagning vinnu í höndum viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess. Með dreifstýringu kjarasamninga hefur vinna af þessu tagi færst til stofnana. Menntamálaráðuneytið hefur unnið að greiningu þessara verkþátta, bæði með sérstökum skýrslum starfshópa á vegum þess og ekki síst í tengslum við setningu nýrra laga um framhaldsskóla.

Fjármálaráðuneytið samdi við Kennarasamband Íslands um meðferð fjarkennslu með bókun í kjarasamningi frá 7. janúar 2001. Ég vil lesa þá bókun upp, með leyfi forseta:

„Með tilvísun til auglýsingar sem menntamálaráðherra hefur ákveðið að birta í janúar 2001 eru aðilar sammála um að vegna fjarkennslu geti skólameistarar á grundvelli gr. 2.1.2 í kjarasamningi KÍ og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs samið við starfsmenn um aðrar mælistikur á kennslu en kennslustundir, t.d. á grundvelli nemendafjölda. Slíka samninga skal gera í samráði við fulltrúa stéttarfélags innan viðkomandi stofnunar.“

Síðan var gerð bókun 26. maí 2011 með kjarasamningi sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar munu fjalla um niðurstöður aðlögunarstarfs á vegum mennta- og menningarmálaráðherra og gera viðeigandi breytingar til samræmis við þær.

Samningur aðila um breytingarnar liggi fyrir 1. september 2012 og verði borinn undir atkvæði félagsmanna KÍ í framhaldsskólum í september 2012 að undangenginni kynningu.“

Í bókun 4 stendur, með leyfi forseta:

„Þar til niðurstöður aðlögunarvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins liggja fyrir vilja aðilar staðfesta að þeir eru sammála um að vegna fjarkennslu geti skólameistarar á grundvelli gr. 2.1.2 í kjarasamningi KÍ og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs samið við starfsmenn um aðrar mælistikur á kennslu en kennslustundir, t.d. á grundvelli nemendafjölda. Slíka samninga skal gera í samráði við fulltrúa stéttarfélags innan viðkomandi stofnunar.“

Samkomulag mennta- og menningarmálaráðherra og Kennarasambands Íslands um aðlögun kennarastarfsins að nýjum framhaldsskólalögum sem gert var samhliða síðasta kjarasamningi er sá farvegur sem þessi mál eru í í dag.

Samkvæmt upplýsingum mínum vinnur þessi starfshópur innan menntamálaráðuneytisins og ég veit ekki betur en það starf gangi ágætlega.