140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

áminningar gagnvart opinberum starfsmönnum.

442. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég held áfram að spyrja hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að stólaskipti urðu í ríkisstjórninni um áramótin. Forveri hæstv. fjármálaráðherra í embætti sagði skýrt við mig í umræðu hér varðandi hugsanlegar breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna að endurskoðun væri í gangi og að líklega yrði farið af stað með að endurskoða starfsmannalögin. Í ljósi þess vil ég fá að vita hvort sú vinna sé hafin og hvort hæstv. fjármálaráðherra ætli að fylgja þeirri vinnu eftir.

Ég vil líka benda á að við, nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, höfum einmitt lagt fram frumvarp sem felur það í sér að endurskoða starfsmannalögin, sérstaklega er snertir áminningar og skyldur. Við tökum sérstaklega tillit til þeirra leiðbeininga sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér í skýrslu um mannauðsmál ríkisins, en þar koma ýmsar ábendingar fram, meðal annars segir þar, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur að breyta þurfi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og einfalda reglur þeirra um starfslok ríkisstarfsmanna.“

Þar segir einnig:

„Að mati Ríkisendurskoðunar tryggja stjórnsýslulög ríkisstarfsmönnum fullnægjandi réttarvernd í starfi.“

Við erum enn þá með þessi gömlu lög sem byggð eru á gömlum grunni. Ekki hefur verið tekið tillit til ýmissa lagabreytinga og nýrra laga eins og stjórnsýslulaganna á sínum tíma.

Tilgangur frumvarps okkar sjálfstæðismanna er að stefna að auknum sveigjanleika í rekstrarumhverfi stofnana ríkisins. Ég hefði nú talið að fjármálaráðherra ríkisins, ekki síst á þeim tímum sem nú eru, mundi fagna því sérstaklega að auka sveigjanleika í rekstrarumhverfi stofnana þannig að menn gættu þess að fjármunir á hverjum tíma væru nýttir á sem árangursríkastan og bestan hátt.

Eins og ég gat um áðan sagði fyrrverandi fjármálaráðherra að farið yrði í það að endurskoða reglurnar. Það verður þó að segjast eins og er að hann, ásamt fleiri ráðherrum í núverandi ríkisstjórn, var alfarið á móti breytingum svipuðum þeim sem lagðar voru fram á sínum tíma í þinginu af hálfu þáverandi ríkisstjórnar. Núna er sem sagt komin upp breytt staða, önnur ríkisstjórn, aðrir ráðherrar með allt aðrar skoðanir. Engu að síður er skoðun Ríkisendurskoðunar skýr. Ríkisendurskoðun telur að breyta þurfi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er hún sammála því að breyta þurfi þessum lögum? Mun hún beita sér fyrir því?