140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

áminningar gagnvart opinberum starfsmönnum.

442. mál
[16:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Eins og ég sagði frá í upphafi skoðar starfshópur innan ráðuneytisins nú athugasemdir og hugmyndir ríkisendurskoðanda. Skýrsla hans verður rýnd og tillögur verða síðan unnar í framhaldinu. Sumar eru komnar vel á veg en það er ýmislegt þarna sem skoða þarf. Auðvitað þarf að gæta að hag ríkisstarfsmanna og það þarf að skoða stöðu þeirra, hún er mjög mismunandi og hægt að færa fyrir því rík rök að stjórnsýslulögin séu meira en nægileg fyrir stóran hóp ríkisstarfsmanna.

Sérstaklega hefur áminningarferlið verið gagnrýnt og það hefur verið þungt og erfitt í framkvæmd. Forstöðumenn hafa kvartað undan því, einkum vegna þess að í hugum starfsmanna og stéttarfélaga virðist formleg áminning vera einhvers konar mannorðsmissir sem ber að berjast gegn. Þá virðist hún vera það mikið áfall fyrir starfsmenn að nánast er útilokað að byggja upp eðlilegan starfsanda og traust á ný og gefa starfsmanni þar með kost á að bæta ráð sitt. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir hagsmuni ríkisins og ríkisstofnana að breyta lögunum svo þar geti verið sveigjanlegra starf heldur snýr það líka að hagsmunum starfsmannanna sjálfra. Eins er mikilvægt að skoðað verði í þessari vinnu hvort það séu ekki í raun hagsmunir þeirra, alla vega að miklu leyti, að farið sé aðeins eftir stjórnsýslulögum.