140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

ráðstafanir gegn skattsvikum.

458. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Eitthvað það allra mikilvægasta sem við getum gert á þinginu er að reyna að leggjast á sveif gegn skattsvikum sem eru mein í samfélaginu og koma niður á þeim sem ekki svíkja undan skatti, hinir óheiðarlegu hagnast, hinir heiðarlegu tapa. Það hefur verið rætt hér fram og aftur og fjármálaráðherrar hafa reynt að beita sér af mismiklum dugnaði í þeim efnum. Það var lítill dugnaður í fjármálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins, í 18 ár, þau síðustu sem samfelld voru í þjóðarsögunni með Sjálfstæðisflokkinn í fjármálaráðuneytinu, virtu sjálfstæðismenn þetta ekki mikils. Þeir reyndu ekki mikið að beita sér gegn skattsvikum og töldu önnur verkefni brýnni. Það er þeirra pólitík, ekki mín.

Það má fara mikinn í þessu en það er líka rétt að athuga einstök ráð. Um daginn var ég að fletta Tíund, ágætu blaði frá skattstjóra, og rakst þá á viðtal við Guðrúnu Þorleifsdóttur lögfræðing sem vann hjá skattinum áður og vinnur reyndar núna í fjármálaráðuneytinu. Þar talaði hún um lagaákvæði sem Norðmenn hefðu nýverið tekið upp sem stuðla átti að betri skattgreiðslum þar sem kaupandi þjónustu er gerður meðábyrgur fyrir skattsvikum seljanda þjónustunnar, hver sem það nú er, til dæmis iðnaðarmaður eða hrossasali, án þess að setja eina stétt umfram aðra í þessu. Ef hann skilur ekki eftir slóð peninganna sinna, þ.e. borgar í gegnum banka, kreditreikning eða eitthvað því um líkt, og ef hann borgar sem sé í reiðufé yfir ákveðinni upphæð er hann meðábyrgur fyrir þessum skattskilum, virðisaukaskatti, tekjuskatti og tryggingagjaldi, ef ég hef skilið þetta rétt.

Upphæðin skiptir auðvitað máli vegna þess að við ætlum ekki að fara að skipta okkur af hverju smáatviki. Í Noregi eru viðmiðunarmörkin sett 10 þús. norskar kr., sem mundu vera um það bil 220 þús. íslenskar kr. Spurningin er sú: Hefur fjármálaráðherra fréttir af reynslu Norðmanna af þessu ákvæði? Í framhaldi af því spyr ég: Er þetta eitthvað sem við ættum að horfa á í löggjöf okkar?