140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

ráðstafanir gegn skattsvikum.

458. mál
[16:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu. Þetta er mjög mikilvæg umræða, skattsvik eru slæm. Þau valda siðrofi, þau skekkja samkeppni og þau búa til óánægju í þjóðfélaginu, mikla óánægju.

Hvers vegna svíkja menn undan skatti? Taldar eru ýmsar ástæður þess, til dæmis geta heilu atvinnugreinarnar lagst af ef skattar verða of miklir, menn geta flutt skattstofninn til útlanda eða svikið undan skatti. Þegar álögurnar verða of miklar vex hvatinn til að svíkja undan skatti og er hvatningarátakið Allir vinna einmitt dæmi um það. Ég hef tekið þátt í því og það var aðallega ég sem vann því að í þessu felst alveg óskapleg vinna og þetta gafst ekki vel í mínu tilfelli. Það hefur kostað mig mikla vinnu að ná í þá aura sem ég á rétt á.

Svo má líka nefna flækjustigið sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur aukið stórlega, flækjustigið gerir skattsvik möguleg.