140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

ráðstafanir gegn skattsvikum.

458. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir að það kann að vera rétt að bíða en þó ekki of lengi eftir fréttum af reynslu Norðmanna af þessu ákvæði sem við fyrstu sýn, og þar tek ég undir með ráðherranum og þeim sem um þetta hafa talað, virðist vera nokkuð snjallt. Þó að það leysi klárlega ekki öll vandamál og hægt sé að komast fram hjá því með einbeittum brotavilja eins og öðru, þá slær það á þetta samkomulag, nauðugt eða viljugt, dulið eða opið, milli kaupanda og seljanda þjónustunnar. Það er að verða plagsiður í samfélagi okkar að kaupandinn meira að segja, ég segi nú ekki neyðist til en verður stundum gegn vilja sínum að taka þátt í málinu vegna þess að seljandinn lítur á það sem skilyrði fyrir viðskiptunum, ef ég má orða þetta hátíðlega. Ég vil orða þetta úr svolítilli fjarlægð vegna þess að það er vont að tala um einstakar atvinnugreinar í þessu sambandi en auðvitað eru það fyrst og fremst þeir sem eru sjálfstætt starfandi eða hjá litlum fyrirtækjum sem hafa svigrúm til þess arna. Þetta er allt of algengt og eftirlit með þessu er allt of lítið. Það þarf ekki mikið að hreyfa sig í þessum geira, ég nefni bara bílabisnessinn, til að sjá og fá fréttir af því að menn stunda svarta vinnu. Það er alveg rétt hjá hv. þm Pétri Blöndal að ýmsar ástæður eru á bak við það. Virðisaukaskatturinn er til dæmis of hár á Íslandi, þannig er það, og ekki nokkur flokkur hefur ráðið við það og flækjustigið er mikið. En ekkert réttlætir skattsvik og það verður líka að muna að engin réttlæting er til fyrir skattsvikum. Þau skemma samkeppni, þau láta hinn óheiðarlega hagnast (Forseti hringir.) og hinn heiðarlega tapa.