140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

ráðstafanir gegn skattsvikum.

458. mál
[17:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Varðandi ummæli hv. þm. Péturs H. Blöndals sem hann lét falla um átakið Allir vinna og taldi það vera mjög flókið og hann hefði unnið mest af öllum í því, þá hef ég tekið þátt í átakinu og það reyndist mér mjög einfalt að ná minni greiðslu til baka. Það er þá fram komið að reynsla manna er að þessu leyti ólík og ætti ekki að fæla þá frá sem heyra þessi orð. Það er vissulega hægt að taka þátt í átakinu á einfaldan hátt.

Norska leiðin hljómar vel vegna þess að hún snertir ákveðið grunngildi sem er ábyrgð. Með henni er ábyrgð á skattsvikunum viðurkennd. Það er ekki bara sá sem selur heldur einnig sá sem kaupir sem ber ábyrgð á svikunum, sem eru auðvitað lítið annað en þjófnaður ef við notum bara skýra íslensku yfir þann verknað. En þjóðarsálin hefur hins vegar ekki álitið sem svo að skattsvik megi skilgreina sem þjófnað og það er kannski gegn því viðhorfi til skattsvika sem við þurfum að vinna. Kannski er leið Norðmanna góð til þess.