140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

álögur á eldsneyti.

482. mál
[17:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um álögur á eldsneyti. Verð á bensínlítranum í dag er 260 kr. og verð á dísilolíunni er enn hærra þó að hún sé umhverfisvænni. Það er því ljóst að gríðarlegar hækkanir hafa leitt af sér að mörg heimili og fyrirtæki eiga erfiðara nú og jafnvel ómögulegt með að ná endum saman. Ef fram heldur sem horfir fer það að flokkast undir algeran munað að aka um á bifreið í þessu landi. Í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, sem er mjög víðfeðmt getur fólk ekki notast við almenningsamgöngur. Í þeim byggðarlögum er nauðsynlegt fyrir fólk að aka á milli staða, jafnvel til að börnin fái menntun við hæfi. Til að kóróna þetta hefur ríkisstjórnin sett sérstakan lúxusskatt á fjórhjóladrifna bíla sem eru nauðsynlegir í mörgum af þessum byggðarlögum. Það er því eðlilegt að við spyrjum hæstv. fjármálaráðherra hvert ríkisstjórnin stefnir í þessum efnum.

Fyrir nokkrum árum var kvartað mikið yfir því að álögur á bensín væru of háar og í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var lögð til tímabundin aðgerð sem minnkaði opinberar álögur á eldsneytisverð landsmanna. Nú er það svo að sögulega séð hefur ríkissjóður aldrei þénað eins margar krónur af hverjum lítra og nú, á sama tíma og mörg heimili og fyrirtæki búa við mjög mikla erfiðleika, tekjusamdrátt og fleira. Þannig að ríkisstjórnin ætti að mínu viti að grípa nú til aðgerða tímabundið og lækka álögur á eldsneyti í landinu.

Hér er um réttlætismál að ræða. Það á að vera ein af grunnforsendum mannréttinda hér á landi að fólk geti komist á milli staða. Með álögum ríkisstjórnarinnar og reyndar einnig vörugjöldum af bifreiðum með fjórhjóladrif er gengið á réttindi margra landsmanna. Við viljum væntanlega ekki lifa í samfélagi þar sem fólk hefur einfaldlega ekki orðið efni á því að fylla bílinn sinn af eldsneyti og sunnudagsrúnturinn er í raun orðinn gríðarlegur lúxus. Við framsóknarmenn hvetjum hæstv. ráðherra til að lækka álögur á eldsneyti, líka vegna þess að með hækkandi eldsneytisverði hækka verðtryggðu lánin og það hækkar síðan skuldabyrði og greiðslubyrði heimilanna. Hér verðum við að grípa til aðgerða og þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort hún hyggist standa að því að lækka opinberar álögur á eldsneytisverð.