140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

álögur á eldsneyti.

482. mál
[17:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef verulegar áhyggjur eftir að hafa setið undir þessari ræðu hv. þingmanns (Gripið fram í: Í alvöru?) og ég hef áhyggjur af skilningsleysi hans, og fleiri hv. þingmanna sem hér hafa tekið til máls, á stöðu ríkissjóðs. Ég vek athygli á því — ef menn eru að tala fyrir tillögu sjálfstæðismanna — að 13 milljarðar kr. sem ríkissjóður yrði af við þá tillögu duga til að reka nánast allt framhaldsskólakerfið sem við ræddum um fyrr í dag. Hvar eigum við að skera niður í velferðarþjónustunni, hv. þingmaður, fyrir þeim gjöldum? (Gripið fram í: Þetta er nú … heyrst.)

Jöfnun flutningskostnaðar var samþykkt í desember sl. sem vonandi nýtist eins og að er stefnt, flutningum á landsbyggðinni. Síðan er það þannig, hæstv. forseti, að önnur ríki eru ekki að lækka þau gjöld sem renna til ríkisins sem þó eru hlutfallslega hærri en hér á landi, ef við lítum til dæmis til Norðurlandanna. Sú þróun er ekki þar og við getum spurt okkur: Af hverju ætti bensínverð að vera ódýrast á Íslandi? Erum við í slíkri stöðu? Er ríkissjóður í þannig stöðu? Hefur velferðarkerfið ekki beðið nægjanlega hnekki? (Gripið fram í: Heldur betur.)

Vilja hv. þingmenn að við lækkum gjöld á bensíni tímabundið, þó að augljóst sé að það muni hækka til framtíðar, og skera þá niður í velferðarkerfinu væntanlega á móti eða vilja menn hugsa til framtíðar að lausn sem dugar okkur Íslendingum sem búum við næga endurnýjanlega orku? Við eigum auðvitað að fara í samstarf við orkufyrirtækin um að koma upp nægilega góðum innviðum þannig að þessi breyting geti gengið hratt og vel fyrir sig.