140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

virðisaukaskattur á barnaföt.

499. mál
[17:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að virðisaukaskattur á barnaföt verði aflagður eða lækkaður. Tilefni fyrirspurnarinnar er frétt sem kom fram á dögunum þar sem nefnt var að hlutfall verslunar á barnafötum er um 44% erlendis. Þetta hefur vakið athygli hjá fólki sem stundar verslunarstörf hér á landi. Með því að horfa á eftir svo stórum hluta einstaklinga fara til útlanda að kaupa þessa nauðsynjavöru er í raun og veru verið að flytja störf úr landi.

Við erum að ræða um heilmikla hagsmuni fjölskyldna í landinu. Þáverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins, Páll Magnússon, mælti ítrekað fyrir því að lækkaðar yrðu álögur á barnaföt og nú hefur sú þróun sýnt okkur fram á það að stór hluti af verslun með þá grundvallarvöru sem barnaföt eru fer fram erlendis. Þess vegna finnst mér eðlilegt að hæstv. ráðherra svari okkur því hvort hún telji efni til þess að lækka álögur á barnaföt. Það þarf að klæða börn í föt, það er einfaldlega þannig.

Þegar við horfum upp á hvernig búið hefur verið að barnafjölskyldum frá hruni með stökkbreyttum húsnæðislánum, barnabætur hafa lækkað um 30% hjá fólki sem hefur lægstu tekjurnar, hljótum við að velta því fyrir okkur hvort hin norræna velferðarstjórn ætli sér með einhverjum hætti eða aðgerðum að koma til móts við barnafjölskyldur í landinu vegna þess að um nauðsynjamál er að ræða. Ég vil reyndar taka svo sterkt til orða að mér finnst að verkalýðshreyfingin hafi átt að taka þetta mál upp á sína arma, jafnvel í tengslum við umræðu um gerð kjarasamninga. Það að búa vel að börnum þessa lands og að allir hafi jöfn tækifæri til að klæða börn sín án þess að ríkið sé með of háar álögur — við hljótum að telja það ákveðið réttlætismál, fyrir utan þá röksemd sem ég nefndi fyrst að með álögum er þessi sérvara mjög skattlögð hér á landi sem hefur leitt til þess að margir hafa, og reyndar í síauknum mæli, leitað til útlanda til að kaupa föt á börnin sín.

Þetta er öfugþróun. Við þurfum að snúa við. Ég er reyndar ekki bjartsýnn á það miðað við fyrra svar hæstv. ráðherra að hún verði jákvæð gagnvart þeirri tilraun minni að gjöld og álögur verði lækkaðar á barnaföt. En færa má rök fyrir því að verði það gert muni störfum fjölga hér á landi og síðast en ekki síst munum við koma til móts við barnafjölskyldur sem hafa orðið fyrir miklum skerðingum frá hruni.