140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

virðisaukaskattur á barnaföt.

499. mál
[17:31]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu sem er brýn og mikilvæg. Ég hef lengi verið talsmaður þess að stjórnvöld komi meira til móts við barnafjölskyldur í landinu. Skattkerfið og stjórnvöld hverju sinni eiga að taka vel á móti þeim börnum sem fæðast hér á landi í öllu tilliti, hvort heldur það er á heilbrigðisstofnunum eða í verslunum og öllu þar á milli.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að lækka eða afnema virðisaukaskatt af barnafötum en ekki einvörðungu af barnafötum heldur horfi ég líka til margs annars varnings sem lýtur að börnum. Nefni ég þar öryggistæki, t.d. hjálma sem börn eiga að nota undir öllum kringumstæðum, hvort heldur þegar þau eru á skíðum eða að hjóla, og er mikilvægt að hafa ekki í hæsta gjaldflokki.

Almennt séð verðum við að benda á kostnaðinn sem af þessu hlýst og ég er reiðubúinn að taka þátt í öllum (Forseti hringir.) góðum hugmyndum sem hjálpa barnafólki ef menn geta bent á leiðir (Forseti hringir.) til að afla tekna á móti. Það er ábyrg stjórnsýsla.