140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

virðisaukaskattur á barnaföt.

499. mál
[17:35]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda Birki Jóni Jónssyni fyrir nauðsynlega umræðu um virðisaukaskatt á barnaföt og lækkun á honum. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort við séum ekki öll sammála um að verkefnið Allir vinna hafi skilað miklum árangri og þá hafi það ekki haft nein áhrif hvort það voru hinir efnameiri eða efnaminni sem framkvæmdu. Hinir efnameiri hafa væntanlega framkvæmt meira og þar af leiðandi fengið meiri endurgreiðslu en verkefnið skilaði mjög jákvæðum tekjum inn í atvinnusköpun og komu hlutum upp á borðið.

Þá mundi ég líka vilja spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki mætti snúa þeirri röksemdafærslu sem ráðherrann var með í sambandi við þann kostnað sem af þessu hlaust, þ.e. 800 milljónir versus 260, hvort ekki mætti líta á það sem velferðarstyrk. Það sé þá í raun verið að skattleggja ungt barnafólk um þessar tekjur til viðbótar, (Forseti hringir.) hvort velferð sé ekki fólgin í því að koma þessum tekjum til barnafólksins.