140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

virðisaukaskattur á barnaföt.

499. mál
[17:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að ef menn vilja gera vel við barnafólk, sem full ástæða er til, eigi menn að hækka barnabætur og ekki vera að hringla í virðisaukaskattinum. Það er ekki þannig, forseti, að menn eigi hér á þinginu eða annars staðar að flokka hluti sem fólk kaupir í góða hluti og vonda hluti og hafa lægri virðisaukaskatt á góðu hlutunum og hærri á vondu hlutunum. Við höfum aðrar aðferðir til þess, t.d. barnabæturnar og aðra styrki og aðferðir. Þar að auki er þetta að sjálfsögðu ekki sanngjarnt, eins og menn sjá í hendi sér þegar þeir eru komnir yfir popúlismann sem hver einasta stjórnarandstaða fellur því miður í hvað eftir annað. Þeir sem kaupa mikið af barnafötum, þeir sem eru ríkir, þeir sem geta veitt börnunum sínum vel, fá miklu meiri afslátt og græða miklu meira á aðferð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar en hinir sem hafa lítil efni og geta lítið keypt.