140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

virðisaukaskattur á barnaföt.

499. mál
[17:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Íslendingar eiga vafasamt heimsmet þegar kemur að skattlagningu á barnafötum. Hæsta skattlagning í heimi á barnaföt, 25,5%, er á Íslandi hjá hinni norrænu velferðarstjórn. Svo koma hv. stjórnarliðar upp og benda á að kannski væri rétt að hækka barnabætur. Hver hefur þróun síðustu ára verið frá hruni?

BSRB hefur bent á það að tekjulægstu einstaklingar fá 30% lægri barnabætur í dag en fyrir þremur árum. Það er afrek ríkisstjórnarinnar þegar kemur að greiðslu barnabóta til handa þeim þjóðfélagshópi í samfélagi okkar. Mér finnst það varla boðlegt að hæstv. ráðherra skuli koma upp í skipti eftir skipti og tala um þann kostnað sem af þessum aðgerðum hlýst en leyfa sér jafnframt að tala ekki um þann ávinning sem af myndi verða fyrir barnafjölskyldur og samfélagið.

Hæstv. ráðherra gat komið með tölur um það hvað þessi aðgerð mundi kosta, þ.e. ef við mundum lækka virðisaukaskatt á barnafötum niður í 7% eða 0%, en hafði ekki fyrir því að leggja mat á það hversu miklir fjármunir kæmu til baka til ríkissjóðs.

Við hljótum að spyrja: Hvenær kemur að því að barnafólk í landinu njóti forgangs hjá þessari ríkisstjórn. Það vantar ekki að hæstv. ráðherra talar mjög fjálglega um stöðu ríkissjóðs og hvað hún er erfið. Það var ekki litið til þess í Icesave-málinu. Það var ekki mikið mál að borga 40 milljarða í vexti á hverju ári. En þegar kemur að barnafólkinu neitar hæstv. ráðherra að lækka virðisaukaskatt af barnafötum sem er sá hæsti í heimi — þetta er heimsmet, vafasamt heimsmet að mínu viti. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með það hvernig hæstv. fjármálaráðherra nálgast þessi viðfangsefni sín.