140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu.

500. mál
[17:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Athyglisvert er að fylgjast með öllum þeim hugmyndum sem dúkka upp í þjóðmálaumræðunni og varða tekjur ríkissjóðs og skattamál. Margir virðast hafa þá trú að ríkið geti orðið af miklum skatttekjum nú um stundir. Ég er hins vegar sannfærður um það, frú forseti, að rétt leið var farin eftir hrunið þegar ríkið varð af gríðarlegum tekjum. Sú þríþætta leið sem þá var valin að skera niður opinber gjöld, hækka skatta og freista þess með öllum ráðum, sem er þriðja leiðin, að koma hagvextinum aftur í gang. Hagvöxturinn er kominn í gang og auðvitað má gera miklu betur þar með margvíslegum aðgerðum sem við skulum ekki fara út í hér. Við urðum að skera niður útgjöld og við urðum að hækka skatta og þær tillögur sem hafa komið fram á undanliðnum vikum og mánuðum er varða skattalækkanir gera ekki ráð fyrir að einhverjar tekjur komi á móti en ríkið má ekki verða af tekjum nú um stundir til að halda uppi því velferðarstigi sem langflestir eru sammála um að því beri að gera. Þess vegna er mjög mikilvægt að hafa allar staðreyndir á hreinu í þeirri umræðu hvort við eigum að lækka álögur og vörugjöld af innfluttu eldsneyti, svo dæmi sé tekið, og við hvaða aðstæður við landsmenn búum í þeim efnum miðað við aðrar þjóðir. Er það svo eins og margir, þar á meðal í stjórnarandstöðunni, hafa látið í veðri vaka að hlutur ríkisins í eldsneytisverði hafi aldrei verið hærri? (BJJ: Sem er rétt.) Það er mjög mikilvægt að fá þau svör á hreint frá þar til bærum sérfræðingum úr ráðuneytinu. Því hef ég lagt fram eftirfarandi spurningar til hæstv. fjármálaráðherra er varða þetta mál til að hafa staðreyndir á hreinu svo við getum byggt umræðuna um hvað við eigum að gera á staðreyndum, með leyfi forseta:

1. Hvenær hefur hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu verið hæst á tímabilinu frá ársbyrjun 1995 til janúarloka 2012?

2. Hvernig hefur hlutfallið þróast hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum á sama tímabili?

Sá sem hér stendur telur að bensínverð muni verða mjög hátt í fyrirsjáanlegri framtíð. Margar ástæður eru fyrir því að svo muni verða meðal annars aukinn hagvöxtur hjá milljarðaríkjum, svo sem eins og Kínverjum, sem munu nota meira jarðefnaeldsneyti en verið hefur um langt árabil. Aðrir þættir munu einnig valda því að eldsneytisverð verður mjög hátt á komandi árum og spurningunni um hvort hægt sé að taka einhvern kúf af hækkuninni virðist hægt að svara með því að sá kúfur er einfaldlega kominn til að vera á komandi árum.

En þetta voru spurningar mínar til hæstv. ráðherra.