140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu.

500. mál
[17:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hafa oft komið fram tillögur um að gera þetta og einu sinni var það gert árið 2002 og væri fróðlegt að fá skýrslu um hvað út úr því kom. Þetta er auðvitað þannig að frá um það bil árinu 2003 hefur verð á eldsneyti verið á hraðri uppleið á heimsmarkaði. Það hefur aldrei verið hærra en núna held ég, það tók dýfu 2008 í miðri kreppu, og engar líkur eru á því, þvert á það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson segir í tillögu sinni og Árna Johnsens og fleiri hv. sjálfstæðismanna, að þetta sé einhver kúfur enda þurfti hann núna að koma með önnur rök en hann viðhafði í fyrra í sömu tillögu og bensínverð er enn hærra núna.

Það sem kemur í ljós í svarinu, sem ég þakka fyrir, er að á Norðurlöndum er skatthlutfallið frá 53 upp í 67% þannig að það er mun lægra hér og væri óráðlegt að lækka það af ýmsum sökum. Ef við ættum þá 13 milljarða sem sjálfstæðismenn vilja taka út úr þessu kerfi til að úthluta hér (Forseti hringir.) væru þeir miklu betur komnir annars staðar því miður, þó þetta sé auðvitað þungbært fyrir þá sem í því lenda og sérstaklega fyrir menn sem þurfa að keyra mikið úti á landi.